1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Áfram Unnur Brá

Áfram Unnur Brá

0
Áfram Unnur Brá
Gunnar Egilsson, bæjarfullrúi D-lista í Árborg.

Í kosningunum á laugardag eigum við Sunnlendingar að kjósa Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, aftur á þing. Unnur Brá hefur verið þingmaður okkar frá árinu 2009 og er reyndur þingmaður sem þekkir innviði Alþingis vel enda var henni treyst fyrir ábyrgðarmesta embætti þess og hefur staðið sig þar með mikilli prýði.

Unnur Brá býr yfir reynslu sem sveitarstjórnarmaður og sveitarstjóri. Hún þekkir vel til málefna síns heimahéraðs og kjördæmisins í heild. Ég tek eftir því að hún þekkir vel til í mikilvægum málaflokkum, svo sem orkumálum, enda starfaði hún í nefnd um rammaáætlun á sínum tíma. Þá er morgunljóst að bændur eiga í Unni Brá góðan bandamann, og veitir víst ekki af þessa dagana miðað við málflutning ýmissa annarra framboða.

Unnur Brá gerir vel það sem hún tekur að sér að gera, og er kannski ekki að flíka því mikið, enda hógvær á meðan hún er harðdugleg. Svoleiðis þingmann þurfum við Sunnlendingar, og því stendur það eitt til boða að setja x við D.

 

Gunnar Egilsson, formaður bæjarráðs Árborgar.