-6.6 C
Selfoss

Samkeppnistillögur um nýtt hjúkrunarheimili í Árborg kynntar

Vinsælast

Niðurstöður hönnunar­sam­keppni um nýtt hjúkrunar­heimili í Sveitarfélaginu Ár­borg voru kynntar í gær í húsnæði Fjölbrautaskóla Suð­ur­lands. Vinningstillagan var frá Urban arkitektum ehf. og LOOP architects aps. Tillagan gerir ráð fyrir hringlaga húsi á tveimur hæðum. Aðkoma er úr suðri og um yfirbyggðan inngang, þaðan eru sjónræn tengs um aflokað sameiginlegt garðrými.

Við sama tækifæri var undir­rituðu Ótarr Proppé, heilbrigðisráðherra, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, samning um tíu viðbót­ar­rými í nýju byggingunni. Hjúkrunarrýmin verð samtals 60 talsins.

Hjúkrunarheimili í Sveitarfélaginu Árborg
Á síðasta ári var ákveðið að reisa nýtt hjúkrunarheimili í Sveitarfélaginu Árborg, Selfossi. Við hönnun byggingrinnar var ákveðið að fylgja þeirri hugmyndafræði að búa heimilismönnum vistlegt heimili þar sem mannréttindi, mannúð og virðing væru að heiðri höfð. Umhverfi, aðstæður og skipulag á hjúkrunarheimilinu skal byggt á þeirri meginreglu að íbúum sé, eins og kostur er, gert kleift að taka þátt í sem flestum athöfnum daglegs lífs og ákvörðunum sem varða þá sjálfa og þeirra nánasta umhverfi.

Gert var ráð fyrir litlum einingum sem skiptast annars vegar í rúmgott einstaklingsrými fyrir hvern og einn og hins vegar í sameiginlegt rými fyrir íbúa og starfsfólk viðkomandi einingar með eldunaraðstöðu, borðstofu og dagstofu. Í viðmiðum var gert ráð fyrir að hámarki 65 fermetra brúttórými fyrir hvert hjúkrunarrými. Heildarstærð 50 rýma hjúkrunarheimilis verður því að hámarki 3250 fermetrar. Stefnt er að því að útboð á verklegum framkvæmdum verði auglýst síðari hluta sumars 2018 og að heimilið verðitekið í notkun vorið 2020. Fyrir stuttu var ákveðið að fjölga hjúkrunarrýmunum um 10 og verða því því 60.

Verkkaupar eru velferðarráðuneytið og Sveitarfélagið Árborg. Samkeppnin var unnin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Dómnefndarfulltrúar voru tilnefndir af verkkaupum og Arkitektafélagi Íslands. Dómnefnd hóf störf í lok mars 2017.

Alls bárust sautján tillögur og mat dómnefnd tillögurnar samkvæmt áherslum og markmiðum samkeppnislýsingar hönnunarsamkeppninnar.

Niðurstaða dómnefndar
Við val sitt lagði dómnefnd áherslu á lausnir með góðu innra skipulagi og heimilislegu yfirbragði ásamt aðstöðu til útivistar, þar sem aðgengi og öryggismál væru höfð að leiðarljósi og góð vinnuaðstaða fyrir starfsmenn væri tryggð. Horft var til þess að byggingin væri hagkvæm með hliðsjón af framkvæmda- og rekstrarkostnaði byggingarinnar. Þá var einnig horft til þess hvort byggingin félli vel að umhverfi sínu og endurspeglaði vandaða byggingarlist. Stækkunar- og viðbyggingarmöguleikar voru auk þess skoðaðir og metnir.

Lagt var til að þrjár tillögur hljóti verðlaun en þær svara að mati dómnefndar best þeim væntingum sem lýst er í samkeppnislýsingu. Dómnefnd lagði einnig til að tvær tillögur hljóti viðurkenningu með peningaverðlaunum. Þær tillögur sýna með mismunandi hætti áhugaverðar lausnir eða atriði sem dómnefnd þykir rétt að vekja athygli á.
Tillögur að vinningshöfum: 1. verðlaun, kr. 5.000.000 kr., tillaga nr. 02, auðkennisnúmer 57282, 2. verðlaun, kr. 3.000.000 kr., tillaga nr. 03, auðkennisnúmer 08102 og 3. verðlaun, kr. 2.000.000 kr., tillaga nr. 14, auðkennisnúmer 47687
Tillögur sem lagt er til að hljóti viðurkenningu með peningaverðlaunum: Viðurkenning, kr. 500.000 kr., tillaga nr. 01, auðkennisnúmer 37073 og viðurkenning, kr. 500.000 kr., tillaga nr. 08, auðkennisnúmer 21112.

Höfundar vinningstillögu:
Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps. Guðmundur Gunnarsson, Gunnþóra Guðmundsdóttir, Michael Blikdal Erichsen, Mette Nymann, Morten Nymann, Toke Skeldal og Kristian Gatten.

Tillagan gerir ráð fyrir hringlaga húsi á tveimur hæðum. Aðkoma er úr suðri og um yfirbyggðan inngang, þaðan eru sjónræn tengsl um aflokað sameiginlegt garðrými. Ásýnd er lárétt, fáguð og látlaus. Hringnum er haganlega skipt upp í þrjú megin svæði. Á fyrstu hæð er aðkoma og þjónusturými ásamt tveimur heimiliseiningum og á annarri hæð eru þrjár heimiliseiningar. Heimiliseiningarnar tengjast um aðgengi að sameiginlegum útivistarsvæðum og lóðrétta samgönguása.

Á 1. hæð er aðgengið út í garð en út á svalir á 2. hæð. Heildarskipulagið er skýrt og með björtum göngum. Hægt er að komast að hverri einingu án þess að fara um aðra þó svo að einn gangur tengi öll rými hvorrar hæðar. Höfundar loka af hverja álmu fyrir sig, tengja þau útivistarsvæðum og skapa þannig minni afmörkuð rými og heimilislegan brag. Sameiginleg svæði eru miðlæg og hægt er að samnýta svæði milli eininga. Útsýni er gott frá sameiginlegum rýmum.

Einstaklingsrýmin eru vel leyst og hverfast um sameiginlegt rými yfir sveigðan ganginn. Þó þau tengist sameiginlega ganginum eru einingarnar aflokaðar og gengið er beint að borð- og setustofu í flestum tilfellum. Herbergin eru trapisulaga og opnast að úthlið hússins þar sem við tekur útsýni og er aðgengi að einkasvölum úr öllum herbergjum. Salerni snúa að rúmstæði og starfsaðstaða er góð. Innrétting sú er sýnd er á teikningum og þrívíddarmyndum telst ekki heppileg þegar horft er til eðlis íbúasamsetningarinnar, þó nútímaleg og skilvirk sé.

Sameiginlegt garðrými gefur fyrirheit um skjólgott og aðlaðandi umhverfi sem hentað getur til fjölbreyttrar útiveru, samverustunda og þjálfunar.

Efnisval er stílhreint og náttúrulegt í nýnorrænum stíl. Timburlistar fá að veðrast, náttúruleg viðarklæðning og staðsteyptir útveggir falla vel að nærumhverfi sínu og höfundar hafa lagt áherslu á heildræna og sjálfbæra nálgun.

Hönnun byggingar og efnisval falla vel saman og bera með sér sterka sýn og skýra hugsun höfunda.

Byggingin hentar einkar vel til rýmingar bæði inn í garð og út á einkasvalir hvers rýmis. Auk þess sem útisvæði eru á milli allra eininga og hver íbúaeining er sér brunahólf.
Skipulag hentar vel með tilliti til reksturs þar sem tvær einingar eru á jarðhæð og þrjár á þeirri efri. Við frekari útfærslu er æskilegt að horft verði til nýtingar nútímatækni í þá átt að létta mönnun og auka þjónustustig við íbúa.

Viðbyggingar möguleikar eru vel leystir þar sem einni hæð er bætt ofan á bygginguna, annaðhvort að hluta eða að öllu leyti. Inngarður og sameiginleg rými bera auka hæðina án þess að gengið sé á gæði þeirra. Mikilvægt er að tæknilegar útfærslur geri ráð fyrir þessum möguleika til lengri tíma. Jafnframt sýna höfundar fram á að pláss er fyrir aðra eins byggingu á lóðinni ef þörf krefur.

Nýjar fréttir