-6.6 C
Selfoss

Lionsklúbburinn Suðri gaf heilsugæslunni í Vík tvær lífsmarkastöðvar

Vinsælast

Fyrir skömmu afhenti Lionsklúbburinn Suðri heilsugæslunni í Vík tvær lífsmarkastöðvar, sem nýtast einstaklega vel í daglegu starfi á heilsugæslustöðinni. Með stöðvunum er á einfaldan og öruggan hátt hægt að mæla púlshraða, blóðþrýsting, líkamshita og súrefnismettun í blóði.

Klúbburinn hefur leitast við að styrkja ýmiss líknar og heilbrigðismál í héraðinu. Sérstaklega með ýmsum tækjagjöfum til Heilsugæslunnar. Eru þau ófá tækin sem klúbburinn hefur gefið til heilsugæslustöðvarinnar í Vík á starfsárum sínum, ýmist einn eða með kvenfélagi hreppsins. Sérfræðingar á ýmsum lækningasviðum hafa komið til Víkur og nýtt sér tækin og sparað þannig heimafólki margar Reykjavíkurferðirirnar.

Lionsklúbburin Suðri var stofnaður 1968 og verður því 50 ára á næsta ári. Félagar eru núna 25 talsins og hefur fjölgað um sjö á síðustu tveimur árum, eða um 38% og geri aðrir betur.

Starfsemi klúbbsins og fjáröflunar leiðir hafa lengi verið í föstum skorðum. Fundir eru haldnir tvisvar í mánuði frá september til maíloka. Leitast hefur verið við að fá framámenn og frumkvöðla í atvinnulífinu á svæðinu á þessa fundi til þess að segja frá og upplýsa klúbbfélaga um sín verkefni.

Árlega hefur klúbburinn, ásamt hópferðabílum Suðurlands, boðið eldri borgurum í dagsferðir með tilheyrandi veitingum. Þá hafa félagarnir í fjölda ára haft það að markmiði að græða upp moldarrof og gróðurlaust land með sáningu grasfræs og áburðargjöf á hverju ári. Einnig hefur klúbburinn, eins og fleiri Lionsklúbbar víðsvegar um landið, stðaðið fyrir árlegum blóðsykursmælingum. Fastar fjáröflunarleiðir hafa verið pökkun og sala sælgætis fyrir hver jól, svo og árleg útgáfa almanaks.

 

Nýjar fréttir