Margt var um manninn um liðna helgi að fylgjast með þegar Jóhannes Sturlaugsson, frá rannsóknarfyrirtækinu Laxfiskum, lýsti háttarlagi stórurriðans sem á þessum tíma gengur úr Þingvallavatni upp í Öxará til hrygningar.
Jóhannes hefur rannsakað urriðann í áraraðir og sagði hann ánægjulegt að sjá hversu vel þessi sérstæði stofn stendur, eftir að hann hnignaði verulega eftir virkjun útfallsins úr Þingvallavatni 1959. Stofninn hefur ekki verið sterkari en nú eftir því sem menn muna.
Tilvalið er á góðviðrisdegi á þessum árstíma, að ganga upp með Öxará og fylgjast með atganginum hjá urriðanum í þessum magnaða ástarleik. Gott er að hafa sólgleraugu með sem minnka glampann af vatninu.