3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Framleiðsla og sala á öli hafin í brugghúsi Ölverks

Framleiðsla og sala á öli hafin í brugghúsi Ölverks

0
Framleiðsla og sala á öli hafin í brugghúsi Ölverks
Elvar Þrastarson, einn þriggja eigenda Ölverks.
Elvar Þrastarson, einn þriggja eigenda Ölverks.

Starfsemi í brugghúsi Ölverks í Hveragerði hófst formlega þann 6. september síðastliðinn og þá aðeins á eftir áætlun vegna umfangsmikilla framkvæmda sem ráðist var í. Nú tæpum fimm vikum síðar eru alls fimm bjórtegundir fáanlegir úr brugghúsi Ölverks og aðrar sem bíða þess að komast á krana.

„Það var mjög gaman að komast aftur í hlutverk bruggmeistara, en hjartað slær svo sannarlega í brugghúsinu, þar sem ég kann best við mig,“ segir Elvar Þrastarson, einn þriggja eigenda Ölverks. Elvar segir að það hafi tekið sinn tíma að læra á nýtt brugghús og þá nefnir hann helst jarðgufuna í framleiðsluferlinu sem x faktor. „Jarðgufan sem náðist inn í brugghúsið er 150°C heit. Eftir smá byrjunarerfiðleika hefur hún staðið fyllilega fyrir sínu sem er afar ánægjulegt og gefur nýja nálgun á bjórframleiðslu á heimsvísu.“

Það er yfirlýst markmið að hjá Ölverki að þar sé ávallt bruggaður bjór af fjölbreyttum toga, bæði fyrir hinn almenna neytanda sem og fyrir kröfuharða kunnáttumenn sem laðast að hinu óvenjulega og veigra sér ekki við að sækja Hveragerði heim til þess að upplifa slíkt.

Tvær bjórtegundir sem hægt er að fá hjá Ölverki í Hveragerði.

Ásamt að því að halda áfram vöruþróun er gert ráð fyrir að hefja innan skamms formlega móttöku á hópum í sérstökum sal þar sem boðið verður upp á sýnilega bjórverksmiðju, útskýringu á nýtingu orkunnar, sérstöðunni og framleiðsluferlinu auk þess sem gestum mun gefast kostur á að smakka framleiðsluna. Áhugasömum gefst tækifæri á að fylgjast með Ölverklífinu inn á Facebook (Ölverk) eða inn á Instagram (olverkbrugghus).

Ölverk Pizza og Brugghús opnaði 28. maí síðastliðinn og sérhæfir sig í eldbökuðum pizzum og bjór úr brugghúsi staðarins sem knúið er áfram með jarðhita. Tveir af fáanlegum Ölverk bjórum eru Pale Ale og Hveitibjór.