Út er komin hjá bókaútgáfunni Sæmundi bókin Smugudeilan eftir Arnór Snæbjörnsson. Formála ritar Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og forseti Íslands.
Í bókinni er rakin saga Smugudeilunnar á tíunda áratug 20. aldar sem um sumt minnti á þorskastríðin fyrr á öldinni. Munurinn var að nú voru það Íslendingar sem voru eltir af varðskipum.
Upphaf veiðanna í Smugunni mátti rekja til erfiðleika hjá íslenskum útgerðarfyrirtækjum. Verð á mörkuðum fór lækkandi og á sama tíma var samdráttur í þorskafla hér heima. Margir íslenskir útvegsmenn litu svo á að þeir ættu enga skuld að gjalda Norðmönnum, en tekist var á um veiðarnar bæði á Íslandi og í Noregi. Að baki var síðan margslungin samskiptasaga ríkjanna.
Lengi varð engin niðurstaða af samtölum íslenskra, norskra og rússneskra ráðamanna, sem reyndu m.a. á túlkun og beitingu þjóðaréttar um veiðar í úthafinu, sem var í mótun á þessum tíma. Eftir langvinnar viðræður, sem stóðu með hléum í sex ár, náðist loks þríhliða samningur milli ríkjanna, sem enn er í gildi.
Í þessu riti er saga þessarar deilu, Smugudeilunnar, gerð aðgengileg almenningi í líflegri og auðskiljanlegri samantekt Arnórs Snæbjörnssonar sagnfræðings og lögfræðings. Arnór hefur auk menntunar á þessu sviði áralanga reynslu sem starfsmaður sjávarútvegsráðuneytisins.