-6.6 C
Selfoss
Home Fastir liðir Ég verð alltaf glöð þegar ég hugsa til Suðursveitar

Ég verð alltaf glöð þegar ég hugsa til Suðursveitar

0
Ég verð alltaf glöð þegar ég hugsa til Suðursveitar
Helga Sif Sveinbjarnardóttir.

Helga Sif Sveinbjarnardóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er fædd í mars 1972 á bænum Yzta-Bæli í Austur-Eyjafjallahreppi, yngsta dóttir hjónanna Eyglóar Markúsardóttur og Sveinbjarnar Ingimundarsonar en þau voru bæði sérlega bókelsk og hagyrt. Helga hefur búið á Eyrarbakka sunnan undir Litla-Hrauni síðustu tíu ár og á fjóra syni. Hún segist dunda sér í garðinum og dútla við útskurð og fleira með Víkingafélagi Suðurlands.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er alæta á bækur síst þó vísindaskáldsögur þó fantasíur séu mitt líf og yndi. Oftast er ég með fleiri en eina bók í gangi á hverjum tíma oft blöndu af reyfurum og raunsæi. Núna er ég að lesa Fjallið eftir Luca De’Andrea en sagan gerist í ítölsku ölpunum í litlu fallegu þýskumælandi sveitaþorpi. Ekki er allt sem sýnist því undir yfirborðinu er minning um glæp sem aldrei hefur verið leystur. Þessi saga verður bara flóknari með hverri síðunni og er passleg blanda af drama og gagnrýnni hugsun fyrir forvitna hugi eins og mig. Einn af mínum uppáhaldshöfundum er Lee Child og eru sögur hans um gallhörðu fyrrum herlögguna sem ekkert bítur á alltaf á leslistanum hjá mér. Nú er hljóðbókin Fimbulkaldur í eyrunum og eldist vel. Svo er ég með Íslensku orðsifjabókina eftir Ásgeir Blöndal Magnússon á stofuborðinu en þar finnur mitt innra nörd skýringar á orðum sem ég er forvitin um.

Hverjar eru lestrarvenjur þínar?
Ég er alltaf með nokkrar bækur í gangi í einu og sem tákn nútímans er ég með hljóðbækur í eyrum á meðan ég geri það sem gera þarf. Eins verð ég að viðurkenna að ég kýs helst að sofna út frá hljóðbókum á ensku. Núna er það bók eftir Patricia Cornwell From Potter´s field sem er bók númer sex í ritröðinni ef ég man rétt.

Áttu þér eftirminnilega lestrarminningu?
Já það er Þórbergur Þórðarson og verk hans Í Suðursveit. Pabbi minn leiklas bókina fyrir mig og mömmu og er það mér ógleymanlegt. Ég skoppaði í huganum um Suðursveitina í sumaryl og gleði þótt úti geisaði vetur og allt væri fannbarið. Ég verð alltaf glöð þegar ég hugsa til Suðursveitar og Hala. Mér hlýnar um hjartarætur og sé mig pínulitla skottu að kubba á gólfinu í svefnherberginu á Yzta-Bæli. Sennilega er þetta mín fallegasta æskuminningin.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Það er Prinsessan sem átti 365 kjóla eftir Mariette Vanhalewijneit. Þessa bók gat ég lesið endalaust sem barn og sleit henni raunar alveg út. Seinna heillaðist ég af 1001 nótt en það er nú tæpast barnabók. Pabbi las mikið fyrir mig sem barn og ég naut mikilla forréttinda á því sviði. Held að fá fimm ára börn hafi hlustað á og skilið Snorra Eddu fyrir utan mig. Raunar var sú bók svo vel geymd í barnsminninu að það var ekki fyrr en í framhaldsskóla að ég áttaði mig á því að þetta var ekki eins og hvert annað ævintýr.

Er einhver bók sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig er Býr Íslendingur hér? sjálfsævisaga Leifs Müllers um hrylling seinna stríðs og veru í fangabúðum nasista og líf eftir þessa reynslu á Íslandi þar sem enginn skildi sannarlega hvernig var að hafa lifað þessar hörmungar af. Ég gæti ekki hugsað mér að lesa hana aftur en lesturinn jók skilning minn á hörmungum stríðs og gildir þá engu hvar í heiminum það geisar.