-5.4 C
Selfoss

Samleikur í söng og upplestri í Húsinu

Vinsælast

Ásta Kristrún Ragnarsdóttir í Bakkastofu á Eyrarbakka er um það bil að stíga fram á bókmenntavettvanginn en fyrsta bók hennar er væntanleg í nóvember. Titill bókarinnar er Það sem dvelur í þögninni og er hún líkleg til að vekja forvitni margra.

Ásta Kristín var spurð hvernig verkið hafi orðið til.
„Við Valgeir höfum helgað bróðurhlutann af árinu í skapandi skrif í bland við tónsmíðar. Þessi skrif mín eru ný af nálinni, því nú hef ég skrifað sögulega skáldsögu, sem er jafnframt mitt fyrsta verk af þeim toga. Segja má að ástæðan sé sögustundum í Bakkastofu að þakka eða kenna því þar kviknaði hugmyndin hjá einum áheyrenda minna sem starfar hjá bókaforlagi. Síðan fóru hjólin að snúast. Ég byggi sögurnar á sögustundum foreldra minna í sveitinni þar sem ég ólst upp. Þau voru óþreytandi að segja sögur af forfeðrum og ekki síður formæðrum okkar. Sögusviðið lifnaði og myndgerðist fyrir mér sem ungri stúlku. Með aldrinum hafa bæst við upplýsingar sem ýmist rétta sögurnar af eða gerðu það að verkum að ég fann mig knúna til að skálda í eyðurnar. Þar styðst ég við sýn mína í þátíð og nútíð, þar sem ímyndunaraflið er efnisveitan,“ segir Ásta Kristín.

Hvers konar bók erum við að tala um?
„Jú ég teygi mig tvö hundruð ár aftur í tímann, fyrst norður í land til formæðra minna og þaðan austur á firði. Eftir það liggur leiðin suður til Eyrarbakka og Reykjavíkur. Ég skrifa um sterkar konur sem flestar giftust þjóðþekktum mönnum. Ástin og baráttan fyrir frelsi þjóðarinnar er æðasláttur sem litar lífshlaup þeirra. Það finnst mér spennandi flétta. En í ástar- og hugsjónabaráttu stígur lífið flókinn dans. Segi ekki meira í bili. Bókin er gefin út af Björt og er þetta fyrsta ættarskáldsagan sem kemur út undir því merki. Forlagið er í eigu mætra kvenna sem hafa hingað til einbeitt sér að útgáfu vandaðra barnabóka undir heitinu Bókabeitan.“

Hvenær fáum við að vita meira?
„Í Menningarmánuði Árborgar höfum við Valgeir sett saman dagskrá með fléttunni „Söngur og upplestur“ og þá mun ég kynna bókina sem kemur út á næstu vikum. Viðburðurinn fer fram í Húsinu og mun ég án efa velja til upplestrar einhverja kafla sem gerast í Húsinu og í sýslunum á Suðurlandi. Við Valgeir eigum í farsælu samstarfi við Húsið og Lýður safnstjóri hefur aldeilis verið betri en enginn þegar mig hefur skort heimildir til að sannreyna sögur mínar úr bernsku.“

Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Byggðasafnið, en líka við Rauða Húsið sem heldur menningarkaffi á jarðhæðinni fyrir þá sem sækja dagskrána. Allt frítt og fallegt í boði Árborgar í „Október menningarmánuðinum“, á 120 ára árstíðarafmæli Eyrarbakkahrepps og 70 ára afmælisári Selfoss. Dagskráin verður flutt í fjögur skipti tvær helgar í röð, laugardagana og sunnudagana 24. og 15. október og þann 21. og 22. október kl. 14:30.

Nýjar fréttir