3.9 C
Selfoss

Ný þjónustu- og verslunarmiðstöð ferðamanna opnuð í Vík

Vinsælast

Ný þjónustu- og verslunarmiðstöð fyrir ferðamenn hefur verið opnuð í Vík í Mýrdal en yfir ein milljón ferðamanna heimsækir Vík árlega og var öll aðstaða fyrir þá á svæðinu löngu sprungin. Heildarfermetrafjöldi þjónustu- og verslunarmiðstöðvarinnar er 4000 fermetrar og er hún hönnuð með það í huga að mæta þörfum ferðamanna. Þar eru til dæmis yfir tuttugu og fimm salerni sem ferðamenn geta nýtt sér endurgjaldslaust, ásamt fjölbreyttri verslun og þjónustu.

Þjónustumiðstöðin séð úr lofti.

Nýja þjónustu- og verslunarmiðstöðin hýsir veitingahúsið Ice Cave, Lava kaffishús, KR matvöruverslun, Icewear útivistarverslun, IceMart verslun og prjónaverksmiðjuna Víkurprjón. Á veggjum rýmisins hefur verið sett upp ljósmyndasýning þar sem stiklað er á stóru í sögu staðarins og tengingu svæðisins við náttúruna. Þá stendur gestum til boða að skoða prjónaverksmiðjuna Víkurprjón án endurgjalds, en hún er ein sú stærsta hér á landi.

Næg bílastæði eru við miðstöðina og þar eru sérmerkt stæði fyrir rútur og stærri bifreiðar.

„Fjöldi ferðamanna hér í Vík hefur aukist gríðarlega á undanförnum sjö árum og það var löngu orðið tímabært að bæta aðstöðu fyrir þá. Nýja þjónustumiðstöðin gjörbreytir allri aðstöðu hér og okkur hlakkar til að taka vel á móti ferðalöngum sem leggja leið sína í Vík í Mýrdal,“ segir Ágúst Þ. Eiríksson, eigandi Icewear og forsvarsmaður verkefnisins.

Nýjar fréttir