3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Leikvellir á Selfossi

Leikvellir á Selfossi

0
Leikvellir á Selfossi
Leikvöllur í Háengi (svartur).
Á myndinni má sjá kort af Selfossi þar sem búið er að merkja inn alla leikvellina. Þeir sem eru grænir eru mjög flottir, með fjölbreyttum og vel förnum leiktækjum. Bláir eru ágætir sem mætti bæta. Svartir eru í niðurníðslu og rauðir eru þeir sem búið er að leggja niður. Gulir eru leikskólarnir.

Í Árborg eru leikvellir í næstum því hverju hverfi. Einhverjir eru til fyrirmyndar en aðrir eru í niðurníðslu.

Leikvöllur í Háengi (svartur).

Nýlega var sett inn færsla varðandi leikvelli á Selfossi inn á Facebook-hópinn Íbúar á Selfossi. Í færslunni var talað um að fáir leikvellir væru á Selfossi og vildum við í ungmennaráði Árborgar vekja athygli á því að leikvellir finnast í nánast hverju hverfi. Einnig er aðstaða á leik- og grunnskólalóðum til fyrirmyndar. Nokkrir aðilar úr ungmennaráðinu fóru í stutta vettvangsferð á síðustu dögum, skoðuðu og tóku myndir af leiksvæðum í bænum. Í ljós kom að margir af þessum leikvöllum þurfa bara smá breytingar og viðhald til þess að verða mjög flottir. Á sumum stöðum þar sem leikvellir stóðu áður fyrr eru nú ónýttar lóðir en það eru í Lágengi, Bakkatjörn, Stekkholti og Þóristúni.

Í hverju einasta íbúahverfi er mikilvægt að hafa að minnsta kosti einn stað þar sem fjölskyldur geta komið saman og átt góðar stundir. Einnig getur það aukið traust barna ef foreldrar geta sent krakkana sína ein á leikvöllinn sem er í hverfinu. Sveitarfélagið Árborg virðist hafa gert sér grein fyrir því en á sínum tíma var lengi vel leikvöllur í hverju einasta hverfi og oft fleiri en einn. Okkur þykir líka mjög leitt að í nýjum hverfum eru ekki eins margir leikvellir til staðar. Ungmennaráð Árborgar harmar þetta og vill endilega sjá einhverja uppbyggingu á leikvöllum á Selfossi.

Leikvöllur í Háengi (svartur).

Það voru tveir leikvellir sem virkilega þurfa úrbætur en það eru leikvellirnir í Reyrhaga og við Háengisblokkirnar. Í Reyrhaga er umhverfið illa farið, það vantar bekk og að laga grindverk og jafnvel koma fyrir hliði því leikvöllurinn er beint við götu. Í Háengi eru eingöngu rólur ásamt sandkassa sem eru bæði mjög illa farin og lítið er um skjól. Mikil þörf er á að koma fyrir nýjum og fjölbreyttum tækjum og gróðri. Það er synd hvað svona stórt og gott miðsvæði er vannýtt.

Vert er þó að taka fram að það voru nokkrir leikvellir sem ungmennaráðið var mjög sátt við. Sem dæmi má nefna leikvöllinn við Heiðarveg sem er fyrir alla aldurshópa og samanstendur af leiktækjum, fótboltavelli og frisbígolf-holum. Völlurinn við Austurmýri er einnig sá glæsilegasti ásamt Dælengi sem er girtur af og er meira fyrir yngri krakka.

Leikvöllur í Lóurima (blár).

Ungmennaráð leggur til að leikvellirnir verði bættir og það gert í samráði við íbúa í nágrenni við hvern völl. Þá er hægt að mæta þörfum hvers og eins hverfis en meðalaldur íbúa í hverfum hér á Selfossi er mjög mismunandi. Þetta getur verið skemmtilegt verkefni fyrir hvert og eitt hverfi þar sem allir geta unnið saman.

Fyrir hönd Ungmennaráðs Árborgar,
Guðmunda Bergsdóttir og Sveinn Ægir Birgisson