3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Regnbogahátíð í Vík um helgina

Regnbogahátíð í Vík um helgina

0
Regnbogahátíð í Vík um helgina

Menningarhátíðin Regnboginn verður haldin í Vík í Mýrdal dagana 6.–8. október nk. Hátíðin hefst föstudaginn 6. október kl. 12 með opnun þriggja sýninga.

Á sýningunni „Hidden people“ í Skaftfellingaskemmu verða ljósmyndir og sögur fólks sem hafa valið Ísland sem nýja heimilið sitt eftir Wiola Ujazdowska. Í Kötlusetri verða tvær sýningar, Katla Unesco Geopark og útisýningin Art Installation – The Golden Garbage Project eftir Lília Carvalho. Kl. 15–18 verður formleg opnun byggingar Icewear og jafnframt opnuð sýningin „Örstutt ágrip af sögu Víkurprjóns“.

Einnig verður opnuð ljósmyndasýning Patrycja Makowska á Hjallatúni. Kl. 18:00 verður kvikmyndasýning þar sem myndin „Senn bryddir á Barða“ verður sýnd ásamt stuttmynfunum „Krosstré“ og „Vargöld“. Opnunarhátíð Regnbogans verður í íþróttahúsinu kl. 20-22. Þar verður m.a. þjóðlegt matarsmakk og kór Menntaskólans að Laugarvatni syngur. Síðan verður lifandi tónlist í Suður–Vík og ljósmyndasýningin „Grampa Dave“ eftir Patrycja Makowska.

Á laugardagsmorgni verður ganga um Víkurþorp og boðið upp á opnar vinnustofur og opin hús, golfmót, teymt undir börnum, EY collection o.fl. Eftir hádegi verður Þjóðdansafélag Reykjavíkur með sýningu og létta kennslu. Kl. 15 verða tónleikar á Icelandair Hotel þar sem Katrín Birna Sigurðardóttir, Einar Bjartur Egilsson og Brian R. Haroldsson leika verk eftir Fauré, Tchaikovsky, Saint-Saëns, Vivaldi o.fl. Regnbogamarkaður verður í verslunarmiðstöðinni, örtónleikar og kvikmyndasýning í Eyrarlandi. Um kvöldið verður skemmtidagskrá Regnbogans í íþróttahúsinu. Þar verða m.a. rafmagnaðir tónleikar Guitar Islandico og verðlaun veitt fyrir fallegustu og frumlegustu skreytinguna. Einnig verða tónleikar The Living Arrows í Suður-Vík. Síðan verður Regnbogasveitaball 2017 í Leikskálum þar sem hljómsveitin ALLT Í EINU leikur fyrir dansi.

Á sunnudeginum verður yoga fyrir börn og fullorðna, mynda- og handverkssýning og boðið upp á kakó og vöfflur við Halldórsbúð. Einnig verður hátíðarmessa í Víkurkirkju, hátíðarkaffi á Hótel Kötlu þar sem Gísli Einarsson talar um „að TALA er málið“ og kvikmyndasýning í Eyrarlandi.