3.9 C
Selfoss

Jórukórinn í Kórum Íslands á Stöð 2

Vinsælast

Í byrjun september hófum við í Jórukórnum starfsárið og stefnir það í að verða ansi viðburðaríkt. Stefán Þorleifsson mun stýra kórnum af fagmennsku líkt og undanfarin ár og til viðbótar mun Halla Marinósdóttir stýra raddþjálfun sem er nýjung í boði fyrir kórfélaga. Kórinn dafnar vel og erum við 58 konur sem syngjum saman þetta haustið.

Æfingar fara vel af stað og það sem hæst ber núna er komandi þátttaka okkar í sjónvarpsþættinum Kórar Íslands, sem eru sýndir í beinni útsendingu á sunnudögum kl. 19:00. Við verðum í þættinum þann 8. október og hlökkum mikið til að taka þátt í þeirri gleði. Að sjálfsögðu hvetjum við alla Sunnlendinga til að horfa og taka þátt í símakosningunni, sem ræður helmingshlut úrslitanna.

Komandi helgi er fullbókuð hjá kórfélögum, því á föstudag og laugardag, 6. og 7. október, höldum við okkar árlega Flóamarkað. Þar verður bæði hægt að koma og gera góð kaup á skrautmunum, fötum og jafnvel húsgögnum, og svo koma í kósý kaffihúsastemningu. Í kaffihúsinu verður selt kaffi, vöfflur og tilheyrandi, muffins og safi. Eins verðum við með kökubasar á staðnum. Þessir tveir dagar eru okkar helsta fjáröflun, aðallega fyrir æfingaferð á Hellu í vor en einnig í aðra þætti starfsins. Flómarkaðurinn verður að Eyrarvegi 38, í sama húsi og Flügger þar sem Evíta var áður til húsa, opið föstudag kl. 12:00–18:00 og laugardag kl. 10:00–16:00.

Við viljum einnig nýta tækifærið og þakka hlýhug og velvild fyrirtækja á svæðinu. Undanfarin ár hafa okkur borist styrkir m.a. í formi varnings og húsnæðis. Eins og allir vita eru þetta lykilþættir í félagsstarfi sem þessu, þó að vissulega séu dagleg störf kórsins sjálfbær.

Við vonumst til að sjá sem flesta á markaði kórsins um helgina og svo sjáið þið okkur flestar á skjánum á sunnudag.

Fyrir hönd Jórukórsins, Laufey Ósk Magnúsdóttir.

Nýjar fréttir