3.9 C
Selfoss

Gaman að sjá hvað fólk er ánægt fyrir okkar hönd

Vinsælast

Martin Andersen og Erna Jónsdóttir hafa rekið verslunina Strikið að Austurvegi 69 á Selfossi í tólf ár. Nýlega fluttu þau sig um set í nýtt og rúmgott húsnæði á sömu slóðum við hliðina á Jötni og The Pier.

Þau fluttu heim frá Danmörku árið 2005. Erna er sjóntækjafræðingur að mennt og hóf störf við það í Reykjavík þar sem hún vann fyrstu árin. Martin hafði hug á að starfa við innflutning þar sem hann er menntaður innan þess geira og ákvað því að hafa samband við fataframleiðendur á Mið-Jótlandi þar sem hann þekkti aðeins til.

„Ég kem frá Mið-Jótland sem er stærsta fataframleiðslusvæði Danmerkur. Ég fór af stað og spurði hvort ég mætti selja vörur þeirra á Íslandi. Sums staðar fékk ég nei en oft já og þannig byrjaði það. Við erum í dag í samstarfi við fullt af búðum sem vinna saman og kaupa inn saman. Við kaupum ekki endilega það sama en erum með samninga til að kaupa á góðu verði,“ segir Martin.

Verslunin Strikið opnaði vorið 2005 í húsnæði baka til að Austurvegi 69 á Selfossi. „Við völdum þetta húsnæði og staðsetningu til að halda álagningunni niðri. Þetta snýst allt um lága álagningu hjá okkur til að geta boðið viðskiptavinum okkar vandaðan fatnað á lægra verði en hægt er að fá annars staðar. Lægri húsaleiga er bara einn af álagningarliðunum. Svona stórt rými væri mjög dýrt ef það væri á besta stað í bænum,“ segir Erna. „Annar álagningarliður er innkaup fyrir verslunina. Við flytjum allt inn sjálf og sleppum þannig við þann aukakostnað sem milliliðirnir taka. Við seljum alvöru fatnað á lágu verði og tökum nú eingöngu inn vörur frá framleiðendum sem selja gæðavörur. Bæði herra- og kvenfatnað fáum við í stórum stærðum líka.“

Erna var spurð hvaða vörur þau hafi byrjað með. „Við erum búin að vera með herraföt frá Carnet allan tímann, mest jakkaföt og skyrtur. Þetta merki var selt á Íslandi áður, en þegar við byrjuðum með það lækkuðum við verðið um 50%. Þetta eru alvöru jakkaföt úr mjög góðum efnum sem krumpast ekki.“

Hvernig var línan í byrjun varðandi vöruúrvalið? „Ég þekki þann aðila sem á og stofnaði Carnet merkið og hann var fyrsti maðurinn sem ég talaði við. Það var aðallega það merki sem okkur langaði að selja. Þetta byggðist allt í kringum það. Það var mjög sterkt fyrir okkur að fá þetta merki því það var hægt að selja þetta á mjög góðu verði. Við þurftum síðan að finna eitthvað sem passaði inn í það. Í gegnum tíðina höfum við bætt við okkur góðum merkjum og skorið frá það sem ekki virkaði,“ segir Martin.

„Upphaflega vorum við með meira af kvenfatnaði. Svo hefur bara gengið svo vel með herrafötin þannig að þau hafa orðið meira áberandi. Við byrjuðum svona 50:50 með kvenfötin og herrafötin en núna er mest af herrafötum hjá okkur,“ segir Martin. „Við höldum samt áfram með kvenfatnað og erum að bæta inn í kvendeildina nýju merki fra Austurríki sem heitir Karntner sem okkur finnst lofa góðu.“

„Í herrafatnaðinum erum við aðallega með Carnet og svo erum við líka með herrabuxur frá þýska framleiðandanum Brühl sem er með mjög háan standard. Einnig erum við með merkið Pre End sem er nokkuð þekkt vörumerki og hefur verið selt hér á landi í mörg ár. Það er einnig selt á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og fleiri stöðum,“ segir Martin.

Þegar þau eru spurð hverjir séu aðallega viðskiptavinir þeirra segir Erna að það sé eiginlega „fjölskyldan Ísland“ en þó mest fólk af Suðurlandsundirlendinu alveg austur á Höfn. Svo sé mikið af fólki af Suðurnesjum sem komi til þeirra. „Fólk gerir sér ferð þaðan til að koma til okkar, sérstaklega til að kaupa sér jakkaföt.“

„Ég hef stundum sagt að við séum ekki að selja drauma,“ segir Martin, „tískubúðir eru mikið í því og selja þá gjarnan vörur á háu verði. Við erum bara að selja góðar vörur á góðu verði. Fyrir fólk sem kann að meta það og vill ekki láta hugsa fyrir sig borgar það sig. Margir sjá að þeir eru að fá hér alvöru vörur en borga bara mikið minna fyrir það.“

„Það er frábært að finna hvað viðskiptavinir okkar eru ánægðir með veru okkar hér, það er mjög gefandi. Við höfum líka alla tíð auglýst frekar lítið. Það hefur verið fólk sem hefur auglýst fyrir okkur. Fólk sem er ánægt segir öðrum frá og það langar að þetta gangi vel hjá okkur. Það er í raun besta auglýsingin fyrir okkur,“ segir Erna.

Strikið flutti í lok ágúst, byrjun september í nýtt húsnæði í sömu byggingu. Nýja húsnæðið er stærra og mun bjartara og snýr auk þess út að þjóðvegi. „Framhaldið leggst bara mjög vel í okkur,“ segja þau Erna og Martin. „Þetta er auðvitað miklu skemmtilegra rými, bjartara og huggulegra. Það er líka gaman að sjá hvað fólk er ánægt fyrir okkar hönd þegar það sér nýja húsnæðið.“

Nýjar fréttir