3.9 C
Selfoss

Frækin feðgin með tónleika í Selfosskirkju

Vinsælast

Það var góður tónn í feðginunum Ólafi B. Ólafssyni harmónikkuleikara og Ingibjörgu Aldísi sópransöngkonu er þau höfðu samband við Dagskránna nýlega, enda er sannkölluð tónaveisla framundan hjá þeim í Selfosskirkju föstudaginn 6. október nk.

„Við munum fara í gengnum lífs- og starfsferla stórsöngvaranna Guðmundu Elíasdóttur, Stefáns Íslandi og Ingveldar Hjaltested,“ sagði Ólafur „og auk okkar stíga á stokk óperusöngkonurnar Signý Sæmundsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttur ásamt hinum góðkunna tenór Agli Árna Pálsssyni, sem ættaður er úr Laugarási. Hrönn Þráinsdóttir leikur undir á píanó og ég gríp í nikkuna með undirleik inn á milli.“

Ingibjörg Aldís segir það ánægjulegt að fjalla í tali og tónum um stórsöngvarana þrjá sem voru brautryðjendur í íslenskum óperusöng og ekki amalegt að flytja sönglög af söngskrá frænku sinnar Ingveldar Hjaltested. „Hún er systir ömmu minnar Sigurveigar Hjaltested en auk óperusöngsins tóku þær systur báðar mikinn þátt í tónlistarlífnu hér austan fjalls m. a. í störfum sínum hjá Tónlistarskóla Árnessýslu.“

Feðginin segjast hlakka mikið til tónleikanna sem framundan eru í Selfosskirkju enda sé mjög gott að koma fram í kirkjunni. „Það er sérstaklega góður söngandi ríkjandi þar, sem mér finnst smita út frá sér,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Nýjar fréttir