2.3 C
Selfoss

Tvær verslanir við Eyraveg tveggja ára

Vinsælast

Í október fyrir tveimur árum opnuðu tvær nýjar verslanir við Eyraveg 5 og 7 á Selfossi. Berglind Hafsteinsdóttir sjóntækjafræðingur opnaði Gleraugna Gallerí að Eyravegi 7 þann 10. október 2015 og María Marko hönnuður opnaði Kastalann um mánaðamótin október nóvember.

Þær Berglind og María hafa verið samstíga í rekstrinum sem þær segja báðar að hafi gegnið vel. Þær hafa líka unnið saman og þá aðallega í kynningarmálum. Þær komu í stutt spjall um reksturinn sl. laugardag.

María: Við erum búnar að vera svolítið samferða síðan við opnuðum. Höfum t.d. verið saman með kynningarefni eins og flyera sem við höfum sent í hús og dreift víða.

Berglind: Við höfum líka auglýst aðeins saman.

María: Það má segja að við höfum líka stækkað saman.

Hver var kveikjan að því að þær Berglind og Maríu opnuðu verslanir á Selfossi?

Berglind: Ég er menntaður sjóntækjafræðingur og var búin að starfa hér á svæðinu og í Reykjavík  í 12 ár. Mig langaði að þjónusta alfarið fólkið hér á svæðinu og Sunnlendina alla. Þannig að ég ákvað að opna sjálf verslun hérna á Selfossi.

María: Ég ákvað eiginlega ekki að opna búð. Ég var að leita mér að vinnustofu, litlu plássi þar sem ég gæti haft eitt lítið söluhorn. Svo vatt það bara svolítið mikið upp á sig. Húsnæðið hérna á Eyraveginum var það minnsta sem ég fann. Síðan er verslunin bara búin að stækka og stækka og stækka. Ég er búin að rífa niður veggi sem voru hérna, fjarlægja afgreiðsluborð og svona ýmislegt. Þetta er bara endalaust að vaxa.

Hvernig hefur reksturinn gengið þessi síðustu tvö ár?

Berglind: Reksturinn hefur gegnið vel og hefur bara aukist. Ég er búin að vera að markaðssetja mig hérna í nágrannasveitarfélögunum utan við Selfoss og það hefur gengið vel. Selfoss er svolítið stoppistöð fyrir Skaftafellssýsluna, Rangárvallasýsluna og Árnessýsluna.

María: Það hafa tvær heilar verslanir bæst við reksturinn þ.e. Leynibúðin og Sifjar. Ég og önnur eigenda Leynibúðarinnar vorum saman í námi. Svo flutti hún hérna í götuna á Eyraveginn og langaði til að opna. Við smeltum því ferli svo í gang. Svo þegar barnafataverslun hér á svæðinu lokaði fannst mér vanta eitthvað svoleiðis. Þá fann ég eina sem mér leist vel á og bauð henni stað hérna í búðinni.

Hvað býður þú aðallega upp á í Kastalanum?

María: Við erum með fjölbreytt úrval af vörum. Við erum með bæði skart og skemmtilega hluti fyrir ungt fólk, einnig barnaföt, skemmtilegar tækifærisgjafir og ýmsar vörur fyrir heimilið. Við reynum að hafa þetta í sitthvorum endanum á búðinni.

Hvað með Gleraugna Galleríið?

Berglind: Ég er með gleraugu, linsur og sólgleraugu. Einnig sjónmælingar alla virka daga. Það er mikill kostur að geta boðið uppá sjónmælingar. Ég flyt allt inn sjálf þannig get ég verið alveg samkeppnisfær í verðum. Ég fer á gleraugnasýningar allavegana tvisvar sinnum á ári, þannig fylgist maður með straumum og stefnum í þessu fagi. Svo er ég með þessi tilbúnu lesgleraugu sem maður getur fengið hingað og þangað. Ég kaupi þau samt hjá aðila sem er með góð gler og góðar umgjarðir þannig að það eru meiri gæði í því. Einnig hef ég gott úrval af sólgleraugum, barnagleraugum, unglingagleraugum og fullorðinsgleraugum.

Hvernig sjáið þið framtíðina næstu misserin?

María: Ég vona að þetta haldi áfram að þróast og stækka. Maður er alltaf að hitta og kynnast nýju fólki og mér finnst flestir fara héðan út borsandi. Það er það sem gerir þetta svo skemmtilegt. Mér finnst þetta gaman og þannig stækkar þetta.

Hvernig líst þér á hugmyndir um nýja miðbæinn á Selfossi. Heldurðu að hann hafi áhrif á reksturinn hjá þér?

María: Undanfarið hef ég tekið eftir að verslanir eru að fara frá Selfossi eða hætta. Það er sorglegt að sjá á eftir þessari fjölbreytni sem er nauðsynleg. Mér finnst jákvætt að hugsa um einhvern kjarna sem eykur fjölbreytni á svæðinu. En til þess að það sé fjölbreytni verður fólk að versla á svæðinu. Þær verslanir sem munu koma í hugsanlegan miðbæ verða að hafa grundvöll til að reka sig. Það er gaman að búa í samfélagi sem er stöðugt að stækka en það er samt svolítið skrítið að það haldist ekki í hendur, fjölbreytni í þjónustu og fjölgun íbúa.

Berglind: Maður verður að versla líka hérna heima til þess að þetta reki sig og að það verði þjónusta á svæðinu. Það þýðir ekkert að versla við BYKO og Húsasmiðjuna í Reykjavík þegar þær eru með útibú á Selfossi. Það skilar ekki peningnum hingað. Fólk verður að versla hér heima til þess að það sé einhver þjónusta á svæðinu. Annars fara bara verslanirnar og fólkið á endanum líka. Það er ekki nóg að fá bara ódýrt húsnæði hérna og versla svo annars staðar. Ég hef ekki myndað mér ákveðnar skoðanir um þennan nýja miðbæ. Það er bara aðalatriðið að það sé þjónusta og að íbúarnir versli og nýti sér þjónustuna á svæðinu.

María: Við rekum í raun öll hvert annað. Það er það sem samfélagið gerir. Þetta snýst um það og því meira sem fer í burtu þá hefur það keðjuverkandi áhrif á það sem er hér.

Hvað ætlið þið að gera í tilefni tveggja ára afmælisins?

María: Af því að við erum svona samstíga í okkar rekstri og vexti ætlum við að halda upp á afmælin okkar saman þ.e. afmæli verslananna beggja í byrjun nóvember. Við verðum með afmæliskvöld þar sem opið verður fram á kvöld, uppákomur og almennt fjör. Við munum kynna þetta allt betur þegar nær dregur en þangað til getur fólk fylgst með okkur á samfélagsmiðlum og auðvitað kíkt á okkur á Eyravegi 5 og 7.

Nýjar fréttir