3.9 C
Selfoss

Færðu Hveragerðisbæ útisýningu að gjöf

Vinsælast

Á nýliðnu afmælisári Hveragerðisbæjar færði Listvinafélagið í Hveragerði bænum fyrri hluta útisýningar sem félagið hafði unnið að um skeið. Sýningin var sett upp í Lystigarðinum á Fossflötinni á afmælisárinu og er þar almenningi til sýnis. Þar eru kynntir níu listamenn frá frumbýlisárum bæjarins; rithöfundarnir Gunnar Benediktsson, Helgi Sveinsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson og Valdís Halldórsdóttir, myndlistarmennirnir Höskuldur Björnsson og Kristinn Pétursson og tónskáldið Ingunn Bjarnadóttir.

Hönnuður og sýningarinnar er Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður og var hún jafnframt verkefnisstjóri. Sýningin samanstendur af níu stórum glerveggjum með álímdri filmu með ljósmyndum og textum sem unnir voru af Illuga Jökulssyni í samvinnu við stjórn Listvinafélagins og voru þeir jafnframt þýddir á ensku. Einnig var útbúið app sem hægt er að nálgast með QR-kóða á sýnigunni eða á netinu en þar fást ýmsar áhugaverðar viðbótarupplýsingar, svo sem upplestur, söngur, leiðarlýsingar um svæðið og fleira. Einar Bergmundur Þorbjargarson Bóasson þróaði appið. Við gerð sýningarinnar naut félagið stuðnings Hveragerðisbæjar og styrkja frá Menningarráði Suðurlands og Uppbyggingasjóði Suðurlands.

Sýningin var frá upphafi tvískipt og áhugi er fyrir því að koma síðari hluta hennar upp við fyrsta tækifæri. Sá hluti er eins konar glerveggjagalleríi fyrir tímabundnar og breytilegar sýningar sem einkum er ætlað að kynna núlifandi listamenn sem búsettir eru í Hveragerði. Listvinafélagið heldur líka úti vefnum listvinir.is en með vefnum og sýningunum á Fossflötinni vill félagið halda á lofti þeirri menningu sem hinir fjölmörgu listamenn sem dvalið hafa í Hveragerði til lengri eða skemmri tíma hafa lagt til samfélagsins í Hveragerði.

Nýjar fréttir