1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Um samgöngumál í Vestmannaeyjum

Um samgöngumál í Vestmannaeyjum

0
Um samgöngumál í Vestmannaeyjum
Elís Jónsson, vélfræðingur, rafmagnstæknifræðingur og MPM.

Samgöngur sjóleiðina í Vestmannaeyjum hefur lengi verið mál málanna en jafnframt mjög eldfimt. Það er vandasamt að ræða þessi mál sökum smæðar samfélagsins, tengsla og annarra áhrifa. Skoðanir ráðandi afla hafa ráðið nær eingöngu þrátt fyrir ábendingar á alvarlega yfirsjónum í hönnun nýrrar ferju frá þeim sem vinna og hafa unnið við samgöngur milli lands og Eyja síðustu áratugi. Bygging Landeyjahafnar var mikil framför í samgöngum til Vestmannaeyja, þar vegur þyngst stytting ferðatíma á sjó. Núverandi Herjólfur kom til landsins í júní 1992, í skýrslu um stuðning ríkisins við ferjur og flóabáta frá febrúar 1993 kemur m.a. fram: „Skipið er 2.222 rúmlestir og getur flutt allt að 500 farþega og 72 fólksbifreiðar“ einnig kemur fram „Áætlanir um flutninga með skipinu hafa ekki ræst. Ekki er þó útséð um hvort skipið sé of stórt fyrr en ljóst verður hvort forráðamönnum Herjólfs hf. tekst að afla því aukinna verkefna. Ferjan hefur um 30–40% meiri flutningsgetu en eldri ferja félagsins.“ Fyrsta heila árið í rekstri 1993 voru farþegar 52 þúsund, 6 ferðir í viku og hægt að fjölga í 14. Meiri flutningsgeta og hægt að bæta við ferðum yfir daginn, í smíðanefnd núverandi Herjólfs hafa greinilega verið framsýnir og útsjónasamir menn. Herjólfur er orðinn 25 ára og er mjög gott sjóskip. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar sem minnka nýtingu á bíladekki, eins hefur samsetning á bílaflota breyttst en nýtanlegir lengdametrar (lm.) á bíladekki eru nú um 275 m. Svefnpláss er fyrir 92 farþega sem annar ekki eftirspurn í siglingum til Þorlákshafnar. Samkvæmt núverandi leyfi frá 17. febrúar sl. tekur skipið 386 farþega.

Í ársbyrjun var skrifað undir samning um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju að undangengnu útboði og skv. samningi á að afhenta hana sumarið 2018 en hún á að vera sérhönnuð til siglinga í Landeyjahöfn og eðlilega ætti hún að gera betur en 25 ára gamalt skip hvað siglingar í Landeyjahöfn varðar. Ný ferja er sambærileg að stærð og ristir minna en einnig má búast við að hún eyði minna eldsneyti enda talsvert aflminni en Herjólfur. Bíladekkið er um 330 lm., tekur 540 farþega yfir sumartímann og 390 farþega yfir vetrartímann, kojur fyrir 36 farþega. Herjólfur siglir að jafnaði á 14,5–15,5 hn. en þegar hann kom nýr frá Noregi var meðal ganghraði 17,3 hn., hagkvæmasti siglingarhraði nýrrar ferju á að vera 13 hn. og hámarkshraði 15,6 hn.

Í dag fer mesti tími í lestun gáma en skv. hönnun mun sambærilegt vandamál vera í nýju ferjunni. Þegar Landeyjahöfn var tekin í notkun var alfarið tekið fyrir að farþegar færu með bílum á bíladekk, auk slysahættu tafði það mikið fyrir lestun og losun. Í dag siglir Herjólfur 6 ferðir alla daga í sumaráætlun, fyrsta ferð frá Vestmannaeyjum kl. 08:30 og síðasta ferð frá Landeyjum kl. 22:00. Það hefur lítið breyst hvað flutninga varðar á einu ári og hefði maður kosið að sjá núv. áætlun í útboðsgögnum. Þó raunin hafi verið sú að taka eingöngu tilboði í smíði nýrrar ferju þá er það ekki við Eimskip að sakast fyrir það eitt að fylgja leikreglum sem boðið var út eftir á sínum tíma. Það vekur jafnframt athygli að hafa ekki séð heimamenn bjóða í rekstur skipsins fyrir rúmu ári síðan ef það er svona ríkur vilji eins og nú er látið í skína. Svo virðist sem nýsmiði eigi að leysa öll vandamál við höfnina, jafnvel breyta veðri, vindum og náttúrinni en það þarf því miður meira til og mikil vonbrigði að lítið hafi gerst sl. 7 ár. Sökum aukinnar hagkvæmni á að vera hægt að sigla fleiri ferðir en skv. öllu sem hefur komið fram hér að framan er ekkert sem bendir til að ný ferja verði fljótari í siglingu og flöskuhálsinn mun vera sá sami við lestun og losun. Nýverið lýstu bæjaryfirvöld áhuga á rekstri Herjólfs þar sem hámarks nýting í hverri ferð og arðsemi myndi ekki eingöngu ráða ríkjum. Dagurinn er fullnýttur og fjölgun ferða mun því miður ekki leysa neitt á meðan ný ferja, ekki frekar en Herjólfur nær ekki að sigla fleiri en eina ferð á sama tíma á degi hverjum. Með nýrri ferju má mögulega gera aðeins betur en flöskuhálsinn og baráttan mun áfram vera í eftirsóttustu ferðirnar yfir daginn. Erfiðleikarnir er svo enn meiri í kringum viðburði og annasömustu mánuðina en þegar mest lætur eru 70–80 þús. farþegar í mánuði. Fjölgun erlendra ferðamanna til Vestmannaeyja er einnig í júlí og ágúst. Heildarflutningur í fyrra var um 339 þús. farþegar, frá 1993 hefur farþegafjöldi tæplega 7 faldast og ferðir einnig aukist úr 6 í 42 á viku.

Framsýnir menn hefðu aukið flutningsgetu og bætt samgöngur: A) Flytja 1000 farþega og 200 bíla. B) Flytja 500 farþega og 100 bíla og ganghraði yfir 30 hn. C) Tveimur ferjum, sem flytja 500 farþega og 100 bíla hvor. Augljóslega er akkilesarhæll bættra samganga til Eyja stærðin og hönnun á Landeyjahöfn, svo ekki sé talað um stærð á þjónustuhúsi og öðru sem er efni í aðra grein. Full ástæða er til þess að láta taka út þessa framkvæmd í heild sinni af óháðum aðilum, hvernig sem á það er litið bendir allt til þess að ný ferja sé nú þegar of lítil!

Elís Jónsson, vélfræðingur, rafmagnstæknifræðingur og MPM.