1.7 C
Selfoss

Öflugt starf Lionsklúbbs Hveragerðis komið af stað

Vinsælast

Lionsklúbbur Hveragerðis er nú að hefja nýtt starfsár 2017–2018. Ný stjórn er tekin við en formaður hennar er Birgir S. Birgisson, ritari er Vilmundur Kristjánsson og gjaldkeri er Kristján E. Jónsson. Er það von stjórnar að þetta starfsár verði jafn gæfuríkt og það síðasta. Stjórn liðins starfsárs skipuðu Daði Ingimundarsson, formaður, Guðmundur Guðmundsson, ritari og Kristján E. Jónsson gjaldkeri.

Síðasta starfsár var viðburðaríkt. Fundir voru haldnir tvisvar í mánuði þar sem fræðst var um ýmis málefni, borðað saman og stundum grillað saman, farið í fyrirtæki, tekið á móti gestum, fyrirlestrar haldnir, ferðast saman og margt annað skemmtilegt sem var brallað. Má meðal annars nefna að Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis heimsótti klúbbfélaga, þeir voru með blóðsykursmælingar í samstarfi við Lkl. Eden í Sunnumörk og heimsóttu nýja steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði. Þá heiðraði Ellert Eggertson varaumdæmisstjóri klúbbfélaga með nærveru sinni, haldið var skemmtilegt Jólaball á Hótel Örk í samstarfi við Lkl. Eden og farið tvisvar í keilu og keppt við Eden-stelpurnar. Einnig heimsóttu félafar hljóðverið Glóra í Hveragerði, fjós í Ölfusi og ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Activities í Hveragerði. Tveir nýir félagar voru teknir inn á starfsárinu. Loks var farið í afar skemmtilega lokaferð upp í Borgarfjörð þar sem Lkl. Borgarfjarðar var heimsóttur og brugghúsið Steðji var heimsótt. Borðað var saman um kvöldið í Bifröst. Daginn eftir var farið á Hvanneyri áður en haldið var heim. Lokafundurinn þar sem skipt var um stjórn fór svo fram 6. Maí sl. Haldnir voru 16 fundir á starfsárinu, fyrst á Hoflandssetrinu en síðan í Rauða Kross húsinu. Styrktir voru fjórir aðilar á starfsárinu; Rauði Krossinn í Hveragerði, Leikfélag Hveragerðis, Grunnskólabörnum voru afhentar litabækur um brunavarnir og framboð Guðrúnar Ingvadóttur til alþjóðaforseta var styrkt.

Föst verkefni Lionsklúbbs Hveragerðis eru nokkur. Má þar nefna útplöntun trjáa í lundi klúbbsins upp í dal fyrir ofan Hveragerði, Facebook-síðu sem klúbburinn heldur úti á netinu og gefur út fréttablað einu sinni á ári sem dreift er í öll hús Hveragerðis og víðar – og í aðra klúbba. Stutt er í að fréttablaðið komi út þetta árið.

Nýjar fréttir