3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Byggðaráð Bláskógabyggðar ályktar um vanda sauðfjárbænda

Byggðaráð Bláskógabyggðar ályktar um vanda sauðfjárbænda

0
Byggðaráð Bláskógabyggðar ályktar um vanda sauðfjárbænda

Bréf frá félagi Sauðfjárbænda í Árnesýslu var tekið fyrir á fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar sem haldinn var í Aratungu 30. ágúst sl. Í brefinu var óskað eftir afstöðu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar til ályktunar félagsins sem birtist í umræddu bréfi. Byggðaráð Bláskógabyggðar tók undir áhyggjur Félags sauðfjárbænda þegar fyrir liggur að boðuð er lækkun afurðarverðs annað árið í röð.

Í bókun byggðaráðs segir að sú lækkun á afurðaverði sem nú hefur verið boðuð muni setja greinina í afar erfiða og óásættanlega stöðu. Nauðsynlegt sé að líta á þessa kjötframleiðslu, vinnslu og markaðsmál heildstætt og finna leið til lausnar þannig að allir fái eðlilegan afrakstur af sinni starfsemi. Með því að höggva mest í frumframleiðsluna sé verið að eyðileggja grunninn að þessari framleiðslugrein og öllum muni blæða.

Byggðaráð Bláskógabyggðar hvetur síðan ríkisvaldið, ráðuneyti atvinnumála og Bændasamtökin til að vinna markvisst og skipulega að lausn málsins og gæta í hvívetna hagsmuna frumframleiðandans, þ.e. sauðfjárbóndans. Án hans verði ekki kjötvinnsla, sala, né neysla þessarar frábæru afurðar sem íslenska lambakjötið sé. Enn fremur segir að þessi búgrein hafi ávallt staðið höllum fæti og það feri ekki vel að höggva í þann sem veikastur sé fyrir. Það hafi aldrei verið mannsbragur né sómi af, að sparka í liggjandi mann og það eigi ekki að líða.