-5 C
Selfoss

Heimsótti Selfoss 50 árum síðar

Vinsælast

Fyrir fimmtíu árum ákváðu hjónin Sigurður Ingimundarson og Svava Sigurðardóttir sem þá bjuggu í Smáratúni 19 á Selfossi að taka erlendan skiptinema á vegum AFS samtakanna. Þau fengu til sín ungan bandaríkjamann frá Kansas, Michael Clarklin að nafni. Á þeim tíma var dvalartími skiptinema tveir og hálfur mánuður. Í dag er þetta öðru vísi og margir skiptinemar sem dvelja í heilt ár. Mike lét loks verða af því að koma til Íslands í sumar 50 árum síðar.

Fjölskyldan í Smáratúni 19. F.v.: Erling, Helgi, Sigurður, Almar og Svava.

Mike kom á Selfoss 20. júní 1967 og fór út 31. september sama ár. Alla tíð frá því Mike fór frá Íslandi hefur blundað í honum að koma aftur til Íslands. Hann lét svo loksins verða af því núna á 50 ára afmælinu. Hann hitti Svövu, móður sína, og þá bræður, syni hennar, Erling, Helga og Almar. Sigurður faðir hans er fallinn frá. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hughrifin er Mike upplifði er hann kom hingað aftur. Hann varð yfir sig hrifinn af breytingunum sem orðið hafa og bara að koma aftur og hitta fólkið sitt.

Mike leit við ásamt Erling bróður sínum hjá Dagskránni á Engjaveginum fyrir skömmu og sagði frá upplifun sinni og tímanum sem hann átti á Selfossi fyrir 50 árum. Þess má geta að Erling fór sem gestur til Kansas 1969 og dvaldi hjá vini sínum og bróður í tíu vikur.

Ég valdi norðurhvel jarðar

Útsýnið í vestur þegar Mike var á Selfossi 1967.

„Ég hafði mikinn áhuga á stúdentaskiptum sem Bandaríkin tóku þátt í og var m.a. boðið upp á í mínum skóla í Kansas á sínum tíma. Ég vissi að ég gæti ekki farið í heilt ár þar sem ég var virkur þátttakandi í íþróttum í skólanum mínum. Rúgbyþjálfarinn minn vildi auk þess ekki að ég færi í burtu í heilt ár. Þannig að mér stóð til boða að fara um sumarið í tíu vikur. Það var kallað „The Americans Abroad Program“. Margir sóttu um þennan styrk og sem betur fer var ég einn af þeim sem var valinn. Við gátum ekki valið lönd heldur þurftum að taka fram hvort við vildum frekar fara á norðurhvel eða suðurhvel jarðar. Ég valdi norðurhvelið,“ segir Mike.

Hafði mikinn áhuga á útiveru

Mike og Helgi með veiði úr Vola.

„Það var ekkert tungumálaval en við sögðum í umsókninni hverju við hefðum áhuga á. Ég hafði mikinn áhuga á alls konar útiveru s.s. göngum, veiðum og bara að vera úti. Ég beið í nokkurn tíma en svo var mér sagt að þau hefðu fundið stað fyrir mig, fjölskyldu á Íslandi, nánar tiltekið á Selfossi. Ég fékk nöfnin þeirra en það voru þau Sigurður Ingimundarson og Svava Sigurðardóttir. Fyrir það fyrsta gat ég ekki borði nöfnin þeirra fram og svo spurði ég sjálfan mig hvar Ísland eiginlega væri. Ég var staðsettur í Kansas sem er í miðju Bandaríkjanna. Þar var mikið um bændur og fólk vissi almennt ekki mikið um aðra staði,“ segir Mike.

Augun galopin af undrun

Á þessum tímapunkti var 16 ára strákur frá Kansas allt í einu á leið til Íslands. Hann þekkti ekkert til Íslands og þegar hann kom voru augun galopin af undrun. Allt var svo fallegt. Hann kom á Selfoss 21. júní 1967. Tveim dögum eftir að hann kom snjóaði. Það var því ekki hlýtt úti. „Ég hafði verið mikið úti og var því vel brúnn þegar ég kom. Alla daga var því peysuveður sem ég var ekki vanur. Fyrir mig var þetta nokkuð kalt. Mér fannst það samt allt í lagi. Hér var svo fallegt, mikið vatn alls staðar og víðátta með fallegum fjöllum og sléttum. Mér fannst þetta virkilega vinalegur staður. Hér var rólegt og fólkið einstaklega vingjarnlegt.“

Leið fljótlega mjög vel

Mike segist eðlilega hafa verið nokkuð hlédrægur í fyrstu og ekki talað við marga. Honum leið samt fljótlega mjög vel og byrjaði fljótlega að reyna að segja nokkur orð á íslensku. „Mamma sendi mig t.d. út í búð að kaupa fisk eða í bakaríið að kaupa brauð. Þá þurfti ég að geta sagt „Hvað kostar?“ og „Ekki meira“ o.s.frv. Fólk spurði mig á íslensku hvað ég væri gamall og hvort væri gaman að vera á Íslandi. Ég reyndi að svara á minni litlu íslensku og hlutirnir fóru smátt og smátt að verða skemmtilegri.“

Skrifaði dagbók hvern dag

Mike segist hafa notið sumarsins hér á Selfossi og þá ekki síst hins daglega lífs með fjölskyldunni. Faðir hans Sigurður stundaði sína vinnu eins og gengur og gerist og Svava skildi ensku mjög vel því hún hafði komið til Bandaríkjanna eftir síðari heimsstyrjöldina. „Hún var þannig séð minn aðal túlkur og um leið kennari. Ég skrifaði dagbók hvern einasta dag sem ég var hér og tók myndir. Við fórum stundum í Kópavog, til Reykjavíkur eða í Hveragerði eins og gengur og gerist. Einnig í Þórsmörk og einu sinni fórum við til Vestmannaeyja á hátíð. Við ferðuðumst þannig séð nokkuð. Ég naut þess mjög að sjá þannig suðurhluta Íslands.“

Lífsreynsla sem hjálpaði mér

Fyrir Mike var þetta besti tími ævi hans og segir hann að enn í dag sé það svo. „Fólkið sem ég kynntist og reynslan sem ég fékk hér eru enn í huga mínum bestu stundir lífs míns. Þetta var lífsreynsla sem hjálpaði mér að vaxa og þroskast sem mannleg vera. Þetta hjálpaði mér einnig að skilja að menning er mismunandi, hlutir sem við segjum og gerum eru ólíkir. En fólk er samt alltaf fólk, alveg sama hvert þú ferð. Við erum öll með sama bakgrunninn sem felst í því að við berum umhyggju hvert fyrir öðru.“

Hugsaði oft um að koma í heimsókn

Kathy, Mike og Svava ræða við núverandi húsráðanda að Smáratúni 19.

Nú eru 50 ár síðan Mike var á Íslandi og hann segist oft hafa hugsað um að koma í heimsókn. Segist samt hafa verið farinn að halda að þessum kafla væri lokið og hann ætti aldrei eftir að koma hingað aftur. Hann segir að í lífinu sé það hjá flestum svo að vinnan og fjölskyldan taki allan tíma fólks. Það sé aldrei tími til að koma til baka. „Ég hef samt alltaf haldið tengslum við fólkið mitt hérna á Íslandi, við höfum skrifast á og talað saman í síma. Ég hafði oft talað um að e.t.v. gæti ég komið einhvern daginn. Svo hefur tíminn bara liðið. Eftir að ég og konan mín hættum að vinna og öll börnin eru farin að heiman og byrjuð að vinna sá ég allt í einu möguleika. Þarna er hann nú getum við farið til Íslands. Ég fór því og talaði við Kathy konuna mína og spurði hana: „Hvernig líst þér á að fara til Íslands?“ Hún sagði eins og skot „sjálfsagt“. Hana langaði virkilega að koma til Íslands. Ég var reyndar búinn að tala mjög mikið um Ísland við hana í gegnum öll árin okkar.“

Ég trúi þér ekki

Mike og Erling árið 1969 er Erling heimsótti Mike tveimur árum eftir dvöl hans hér.

Þau fóru strax í það að gera áætlun og höfðu samband við Erling og Svövu. Þau sögðu: „Ég trúi þér ekki, þú hefur svo oft sagt þetta áður“. Ég sagði: „Í þetta skipti erum við að koma“. Það kom svo í ljós að það voru nákvæmlega 50 ár síðan hann var hér á Íslandi. Það gerði þetta enn áhrifaríkara fyrir þau.

Fóru á alla gömlu staðina

Erling tók á móti þeim hjónum og hefur gefið sér góðan tíma til að fara með þau um. Fyrstu dagana fóru þau á alla gömlu staðina, röktu í raun gömlu fótspor Mikes hér. „Þegar ég kom hér voru bræðurnir þrír þ.e. Erling, Helgi og Almar. Erling sótti okkur en við höfum svo búið á fallegu heimili Helga í Reykjavík. Við vorum einstaklega heppin og fengum frábært veður. Við höfum heimsótt Hveragerði og á gamla æskuheimilið hér í Smáratúni 19. Erling hafði haft samband við núverandi eigendur og þau tóku konunglega á móti okkur. Mér fannst ég vera virkilega velkominn. Við fórum síðan um Suðurlandið og heimsóttum m.a. Almar bróður minn á Lambastöðum en hann er með býli og gistingu þar. Ég var gjörsamlega úrvinda eftir þann dag, svo margt að upplifa. Næsta dag fórum við til Vestmannaeyja og vorum þar heilan dag. Þar fékk ég að vita margt sem hafði skeð síðan ég var hér 1967, eins og t.d. Heimaeyjargosið 1973. Ég sá því allar breytingarnar sem hafa orðið. Við skoðuðum fossana á Suðurlandi og komum líka á staði sem ég hafði komið á þegar ég var hér. Svo var hugmyndin að við hjónin leigðum bíl og skoðuðum Vesturlandið líka.“

Var lítið þorp þar sem allir þekktu alla

Þegar Mike kom á Selfoss núna eftir 50 ár varð hann mjög hissa enda hefur býsna margt breyst á þessum 50 árum. Þá var Selfoss bara lítið þorp þar sem bændur komu í bæinn yfir brúna, sumir jafnvel á hestum. „Ég fór gangandi á alla staði sem ég þurfti að fara á. Þetta var lítið þorp þar sem allir þekktu alla. Þegar ég kem núna er þetta allt miklu stærra og hefur stækkað ótrúlega mikið. Þetta er ekki sama þorpið þannig séð. Það var svolítið skrítið að sjá öll trén á Selfossi núna og þá ekki síst í kringum Smáratún 19. Þegar ég var hér fyrir 50 árum voru engin tré hér, bara nokkrir runnar. Það er alveg ótrúlegt að sjá þetta núna. Allt hefur vaxið svo mikið upp. Það á reyndar mikið við um allt Ísland. Eitt af því sem ég skrifaði í dagbókina mína fyrir 50 árum var að hér væru engin tré. Nú sér maður mikið af trjám og að landslagið hefur víða breyst. Það sem stendur samt upp úr er að ég held að fólkið hafi samt ekkert breyst. Hér er enn yndislegt og mjög opið fólk sem tekur alltaf vel á móti manni,“ segir Mike að lokum.

Nýjar fréttir