2.3 C
Selfoss

Alls konar þreifingar í gangi

Vinsælast

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, var nýverið spurður í Dagskránni hver væru helstu verkefni sveitarfélagsins um þessar mundir. Sagði hann að þau hafi verið í mörgum verkefnum þessi síðustu misseri, í framkvæmdum, uppbyggingu innviða og í stefnumörkun.

Miklar fráveituframkvæmdir

„Hvað framkvæmdirnar varðar þá erum við í miklum fráveituframkvæmdum í Reykholti. Þar er verið að tengja stórar garðyrkjustöðvar og hluta af þéttbýlinu við stóra rotþró sem mun svo tengjast við nýtt hreinsivirki sem verður sett upp í framhaldinu. Það er heilmikil framkvæmd. Framundan á næstu árum er einnig fráveituframkvæmdir á Laugarvatni og í Laugarási. Svo styttist í að dæluhús í Reykholti komist í gagnið. Það mun styrkja og bæta hitaveitudreifingu úr Reykholtshvernum. Það er stórt og öflugt hús sem er svo til tilbúið en verið er að vinna í lögnum til og frá og verður tekið í notkun fljótlega. Þá erum við í gatnagerð þar sem við erum að fækka malargötum og setja á þær klæðningu þ.e. loka þeim. Við erum í framkvæmdum í íþróttahúsinu og sundlauginni í Reykholti. Þar er verið að endurnýja búningsklefa, sturtur og afgreiðslu. Húsið var byggt 1976 og því kominn tími á að endurnýja það allt saman. Þá verður einnig samhliða framkvæmdunum sett upp loftræsting í íþróttasalnum. Við vonumst til að þessum framkvæmdum ljúki í byrjun nóvember. Við erum líka í viðhaldi á öllum þessum fasteignum okkar sem eru hér og þar um sveitarfélagið. Það eru svona eðlilegar viðhaldsframkvæmdir sem of langt mál er að telja upp,“ segir Helgi.

Unnið í ljósleiðaraverkefnum

Bláskógabyggð mun fljótlega leggja nýjan kaldavatnsstofn frá Fljótsbotnum, sem er fyrir ofan Haukadal, en þar eru kaldavatnslindir, sem anna Biskupstungum, staðsettar. Þar verður tekinn stór stofn niður í byggð því farið er að bera á vatnsskorti á álagstímum. „Það er mjög stórt verkefni. Stutt er síðan ný kaldavatnslind var tekin í notkun við Laugarvatn sem styrkti dreifingu á köldu vatni í Laugardalnum. Svo höfum við í sumar tekið þátt í með Rarik að setja niður ídráttarrör fyrir ljósleiðara. Í öllum framkvæmdum sem Rarik er í fer alltaf ídráttarrör fyrir ljósleiðara frá okkur með. Það eru býsna margir kílómetrar sem verða dregnir niður núna í sumar. Við erum að vinna í ljósleiðaraverkefnum, undirbúa umsóknarferli og kanna hvaða leiðir eru skynsamlegastar í þeim efnum. Það verður úthlutað úr Fjarskiptasjóði, í verkefnið Ísland ljóstengt, í október/nóvember þannig að við erum að undirbúa það ferli allt saman. Við vonumst til að fá einhverja úthlutun fyrir næsta ár.“

Endurskoðun aðalskipulags

„Varðandi stefnumörkunina og allt sem að henni snýr þá erum við í því að endurskoða aðalskipulagið okkar, en það er á lokametrunum. Það er mikið plagg þar sem m.a. er fjallað um landnotkun og alla þá þætti er snerta skipulagsmál. Svo erum við að endurskoða deiliskipulagið í Reykholti. Í þeirri vinnu erum við að m.a. að taka inn ný og spennandi íbúðasvæði. Stutt er síðan endurskoðun á deiliskipulögum í Laugarási og Laugarvatni lauk. Þá erum við að vinna að umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið sem er mjög áhugavert og ég held að eigi eftir að skila miklum og góðum árangri. Þar er m.a. verið að rýna í sorpmálin t.d. greina magntölur og hitt og þetta. Þannig að við sjáum fram á hagræðingu í þeim málaflokki. Þá gerðist Bláskógabyggð heilsueflandi samfélag á 15 ára afmæli Bláskógabyggðar 9. júní sl. Framundan er vinna við að skipuleggja og koma í framkvæmd þeim skuldbindingum sem þessu innleiðingarferli fylgir. Sveitarfélagið er einnig að undirbúa byggingu á nýjum leikskóla í Reykholti sem er stórt og mikið verkefni. Vegna myglu og raka þurfti að loka Álfaborg, gamla leikskólanum, og færa starfsemina inn í grunnskólann.“ Helgi segist vonast til að hægt verði að bjóða það verk út upp úr áramótum.

Gríðarlegt álag á vegum

„Við erum líka mikið að pressa á ríkið með samgöngumál, löggæslu og heilbrigðismál. Heilsugæslan í Laugarási er okkur öllum mikilvæg og við höfum lagt mikla áherslu á að engar breytingar verði á þeirri þjónustu sem þar er veitt, enda er heilsugæslan ekki bara að þjónusta okkur íbúana heldur alla þá gesti og ferðamenn sem koma inn á okkar svæði. Það er gríðarlegt álag á öllum vegum í Bláskógabyggð og viðhaldsverkefni sem þarf að sinna miklu betur en verið hefur eins og t.d. Biskupstungnabraut, Þingvallaveg og Laugarvatnsveg. Við erum einnig að vinna í því að Reykjavegur fari í framkvæmd. Hann er búinn að vera það í mörg ár og ég ætla að vona að hann frestist ekki enn eina ferðina. Við erum að pressa á ríkið að það gangi allt upp og verkið fari í útboð.

Svo eru ferðamálin fyrirferðarmikil líka. Í Bláskógabyggð eru allra helstu ferðamannastaðir landsins og það eru alls konar þreifingar í gangi vítt og breytt um sveitarfélagið m.a. varðandi skipulagsmál er tengist ferðaþjónustu. Það eru alls konar fjármagnseigendur og ferðamálafrömuðir sem eru að spá og spekúlera. Sumt verður að veruleika en annað ekki. Það er mikil hreyfing á hlutunum og margt spennandi í farvatninu.“

Frá Laugarvatni. Mynd: ÖG.

Góð lending varðandi íþróttamannvirkin

Mikill tími hefur farið í hið svokallaða „Laugarvatnsmál“ þ.e. umræður um framtíð íþróttamannvirkjanna á Laugarvatni. Helgi segir að það mál hafi náð góðri lendingu en sveitarfélagið mun taka við öllum íþróttmannvirkjum á Laugarvatni. En skrifað var undir samning þess efnis við Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra 31. ágúst sl. „Auðvitað mun þetta breyta rekstri sveitarfélagsins eitthvað. Það er ekkert íþróttamannvirki hér á landi sem er rekið með hagnaði eða skilar arði. Á móti kemur að samfélagið hagnast á því. Þannig að það skilar sér til baka með ýmsum hætti. Með yfirtökunni á íþróttamannvirkjunum er öll íþróttaaðstaða Bláskógabyggðar með því glæsilegasta á landinu og miklir möguleikar fyrir hendi. Einn mikilvægasti hluti samkomulagsins er að farið er í makaskipti á landi. Sveitarfélagið fær allt land ríkisins innan þéttbýlisins en ríkið land frá sveitarfélaginu fyrir utan þéttbýlið í staðinn. Þar með er eignarhald innan þéttbýlisins okkar og við getum skipulagt og framkvæmt okkar stefnu með þéttbýlið sem hefur verið flókið hingað til með þetta tvöfalda eignarhald. “

Kennsla í íþrótta- og heilsufræði hjá HÍ er flutt til Reykjavíkur eins og komið hefur fram. Ein af mótvægisaðgerðum við ákvörðun HÍ var að stofna Rannsóknarsetur á Laugarvatni. Helgi segir það mál vera í ferli. „Það eru tveir starfsmenn byrjaðir. Annar er fluttur á Laugarvatn og hinn er á leiðinni. Starfsemin er farin af stað en það á enn eftir að tryggja fjármögnunina til framtíðar. Þetta er mjög spennandi verkefni sem vert er að hlúa vel að. Háskólinn ætlar einnig að nýta húsnæðið undir starfsemi sína. Það munu koma hópar að sunnan og dvelja t.d. í eina viku í einhverju lotunámi eða álíka. Ég vonast til að þetta gangi allt eftir. Sveitarstjórnin á svo eftir að ákveða hvaða sýn hún hefur með gamla íþróttakennaraskólahúsið,“ segir Helgi að lokum.

Nýjar fréttir