3.9 C
Selfoss

Ísland leyst úr læðingi

Vinsælast

Reykjavik Excursions – Kynnisferðir og TripAdvisor kynntu fyrir stuttu nýja dagsferð sem ber heitir „Unleash Iceland“ eða „Ísland leyst úr læðingi“ sem verður seld undir sameiginlegum merkjum félaganna. Í þessari nýju ferð verður farið í Raufarhólshelli, Skyrgerðina í Hveragerði og að lokum verður leitað að norðurljósum.

Í tengslum við þetta samstarf verður efnt til „Unleash Iceland“ happdrættis þar sem tveir gestir geta unnið ógleymanlega ferð til Íslands. Vinningur happdrættisins er einstök ævintýraferð til landsins, þar sem flug, gisting og þrjár sérsniðnar lúxusferðir eru innifaldar. Vinningshafarnir munu upplifa Ísland á einstakan hátt – kvöldverður við möttulstrók, þyrluflug, aðgangur að Betri stofunni í Bláa lóninu og ógleymanleg nótt í upphituðu og fullinnréttuðu tjaldi er meðal þess sem boðið verður upp á.

Reykjavik Excursions – Kynnisferðir og TripAdvisor hafa einnig sérmerkt rútur kynningarátakinu þar sem gestum er boðið að kynnast Íslandi í gegnum tónlist, ljósmyndasýningu og mat á meðan ekið er um stórbrotna náttúru Íslands.

„Það er mikill heiður fyrir okkur að fá að vinna með TripAdvisor að sameiginlegu kynningarátaki um Ísland og að skipulagningu á sérstakri dagsferð,“ segir Kristján Daníelsson forstjóri Reykjavik Excursions – Kynnisferða. „Verkefnið hefur verið í undirbúningi í næstum því eitt ár og starfsfólk TripAdvisor hefur lagt mikinn metnað í þetta rétt eins og við“, segir Kristján enn fremur.

„Ísland er orðið einn af aðaláfangastöðum forvitinna og nýjungagjarnra ferðamanna hvaðanæva að úr heiminum og við erum ánægð að geta unnið með Reykjavik Excursions – Kynnisferðum og aðstoðað ferðamenn í að gera draumaferð sína til Íslands að veruleika,“ segir Nicole Brown, forstöðumaður samstarfsverkefna og vörumerkja hjá TripAdvisor.

Nýjar fréttir