Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi fyrir síðustu viku kemur fram að nokkuð virðist um að veitinga- og gististaðir séu án leyfa, hafi ýmist ekki sótt um rekstrarleyfi eða þau runnið út án þess að hugað hafi verið að endurnýjun þeirra.
Komi slík mál upp er lögreglu skylt að loka án frekari viðvarana þeim rekstri sem um er að ræða. Ekki er að finna í lögum heimild fyrir lögreglu til að gefa undanþágu eða fresti frá aðgerðum sínum. Því verður gjarnan mikið fát hjá rekstraraðilum þegar lögregla kemur á staðinn, gestir bíða gistingar sinnar í gistihúsunum og hópar eiga bókaðann veislumálsverðinn sinn og í hvorugu tilfellanna auðvelt að komast í annað með stuttum fyrirvara. Lögreglan hvetur því rekstraraðila til að ganga frá sínum málum til að ekki komi til afskipta lögreglu af rekstri þeirra.
Þann 1. september sl. varð barn á sjöunda ári, á reiðhjóli, fyrir bíl í botnlanga í íbúðargötu á Selfossi. Barnið var flutt til aðhlynningar á sjúkrahúsi en það hlaut skurð og mar á fæti af árekstrinum en er ekki talið alvarlega slasað.
Drengur er talinn úlnliðsbrotinn eftir að hann féll við boltaleik á leiksvæði við Vallaskóla á Selfossi þann 29. ágúst sl.
Hestamaður er slasaður á baki eftir fall af hesti sínum í reiðtúr í Gnúpverjahreppi. Hann og félagi hans voru án farsíma þegar slysið varð og þurfti félaginn að ríða heim að næsta bæ til að sækja aðstoð. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús en hafði kólnað nokkuð við það að bíða aðstoðarinnar.
Sex tilkynningar bárust lögreglu um að ekið hafi verið á lömb eða kindur við þjóðveg 1 í liðinni viku. Í einu tilfellanna hafði verið ekið á tvær kindur skammt frá Landvegamótum en í hinum tilfellunum, sem áttu sér stað á mismunandi stöðum alla leið austur fyrir Höfn í Hornafirði, var ekið á eina kind eða lamb.
Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.