-11.5 C
Selfoss
Home Fréttir Tap á rekstri Strætó á Suðurlandi

Tap á rekstri Strætó á Suðurlandi

0
Tap á rekstri Strætó á Suðurlandi

Fjallað var um rekstur almenningssamgangna á fundi stjórnar SASS sem fram fór að Laugalandi í Holtum þann 25. ágúst sl. Þar kom fram að á fyrstu fimm mánuðum ársins 2017 hefur farþegum fækkað um 6% samanborið við sama tímabil árið 2016. Ef horft er til rekstrarniðurstöðu fyrstu sex mánuði ársins 2016 þá var tapið 9,6 m.kr. en það er nú 13,3 m.kr. Staðan í ár er því verri sem nemur 3,7 m.kr. Í fundargerð segir að versnandi staða skýrist af minnkun á tekjum af sölu fargjalda en þær hafa minnkað um 5 m.kr. milli ára.

Þar segir enn fremur að nokkur óvissa ríki um reksturinn á seinni hluta ársins en ef gengið sé út frá svipaðri þróun það sem eftir lifir árs megi gera ráð fyrir að 10 m.kr. tap verði á rekstrinum. Vonast er til að kynningarherferðin, fyrir notagildi Strætó sem ferðamáta, hafi áhrif á ferðahegðun þannig að fleiri kjósi að nota almenningssamgöngur.

Formaður SASS kynnti á fundinum núverandi samning við Vegagerðina um almenningssamgöngur. Fram kom að óbreyttu sé ekki grundvöllur fyrir samtökin, og þar með sveitarfélögin á Suðurlandi, að halda utan um rekstur almenningssamgangna eins og verið hefur. Áframhaldandi tap á rekstri almenningssamgangna sé óásættanleg niðurstaða fyrir samtökin og sveitarfélögin á Suðurlandi.