-4.4 C
Selfoss
Home Fastir liðir Að lesa er mér jafn mikilvægt og að knúsa eiginmanninn

Að lesa er mér jafn mikilvægt og að knúsa eiginmanninn

0
Að lesa er mér jafn mikilvægt og að knúsa eiginmanninn
Guðbjörg Grímsdóttir

Guðbjörg Grímsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, ákvað 5 ára að verða kennari og stóð við það. Ætlaði aldrei að giftast kennara – en stóð ekki við það. Hún hefur kennt í grunnskóla á Íslandi og í Noregi og finnst það afar gefandi. Flutti á Selfoss með eiginmanninum, Sigurði Halldóri Jessyni árið 2004 og í dag eiga þau tvo syni sem finnst lífið jafn skemmtilegt og foreldrunum. Líkar afar vel að búa á Selfossi og er íslenskukennari í FSu og nýtur þess í botn, vinnufélagar góðir og finnst henni unga fólkið í dag með afbrigðum yndislegt.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er alltaf með 2–3 bækur á náttborðinu hverju sinni. Þetta er oft blanda af bókum sem ég er að lesa fyrir vinnuna og hins vegar afþreying af ýmsu tagi sem gefur mér andlega næringu. Núna er ég að lesa bókina Hugskot fyrir vinnuna, afar skemmtileg bók sem leggur mikla áherslu á gagnrýna hugsun. Síðan er ég að lesa skáldsöguna Passíusálmarnir eftir Einar Kárason um hina skrautlegu persónu Storm sem ég hef mjög gaman af. Og svo er ég að klára Gildruna eftir Lilju Sigurðardóttur.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Úff, það eru svo margar góðar. Ég verð að velja Bróðir minn ljónshjarta og Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren. Þetta voru uppáhaldsbækurnar mínar þegar ég var barn. Þær buðu upp á ævintýraheima með óþekktum fyrirbærum og loforð um meira. Þetta heillaði mig og ég hef lesið þær nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Í dag þegar ég er orðin móðir hafa fleiri bækur bæst í sarpinn og eru margar afskaplega skemmtilegar en ég verð að nefna tvær, Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni og Barbapabba. Ég veit ekki hversu mörgum sinnum ég hef lesið þessar bækur á milli þess sem ég les Fíusól, Kidda klaufa, Kaftein ofurbrók og Harry Potter svo eitthvað sé nefnt.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég hef alltaf lesið mikið. Þegar ég var krakki bjó ég í Tungunum og þá mátti taka 5 bækur á bókasafninu sem opið var einu sinni í viku. Þannig að ég tók 5 bækur og besta vinkona mín einnig og síðan skiptumst við á bókum í miðri viku. Þannig las ég allt að 10 bækur á viku. Þá var gott að lesa hratt. Núna les ég ekki jafn margar bækur en les þó enn mjög mikið og er ómöguleg án bóka. Að lesa er mér jafn mikilvægt og knúsa eiginmanninn. Bækur hafa einfaldlega gefið mér svo mikið alla tíð. Ég veit að það hljómar eins og klisja en við lestur opnast nýr heimur af ævintýrum þar sem maður fer allan tilfinningaskalann og kynnist spennandi og óspennandi persónum en hver bók býður alltaf upp á eitthvað nýtt. Ég gef mér alltaf tíma til að lesa. Það er mér nauðsynlegt. Ef mikið er að gera og lestur situr á hakanum fæ ég fráhvarfseinkenni. Í alvöru!

Er einhver bók eða skáld sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Fyrsti höfundurinn sem hafði mikil áhrif á mig var Halldór Kiljan Laxness. Þegar ég las Sölku Völku var ég 11 ára og þá gerðist eitthvað. Salka Valka er persóna sem er engri lík. Hún heillaði mig upp úr skónum og ég hló og grét með henni. Ég hef lesið margar bækur eftir Laxness en Salka Valka skipar alltaf sérstakan sess í huga mínum þó að Bjartur í Sumarhúsum komi þar stutt á eftir. Það eru fleiri höfundar sem hafa haft áhrif á mig í gegnum tíðina og í sérstöku uppáhaldi varð Vigdís Grímsdóttir sem er svo ljóðræn í sínum textum.

Ef þú værir rithöfundur hvernig bækur myndir þú skrifa?
Ég gæti hugsað mér að skrifa bækur fyrir alla aldurshópa. Ég hef aðeins verið að fikta við það að skrifa og safna hugmyndum, verið svona skúffuskáld. En ég held að það sem myndi einkenna bækur mínar væru skýrar og skemmtilegar persónur af ýmsu tagi, lifandi atburðarás og síðast en ekki síst húmor. Húmorinn læðist inn í textana mína óboðinn og verður þannig boðflennan mín en ég er sátt við það svo fremi að hann hagi sér vel. Ég mun sjá til þess.