Að taka þátt í einum af stærstu skiptinemasamtökum Evrópu, Erasmus+, er bæði þroskandi og gefandi fyrir þá nemendur sem þar taka þátt. Verkefnin sem eru unnin gera nemendum og kennurum kleift að skiptast á reynslu við aðra utan landsteinanna og vinna saman að einu markmiði.
Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSu) hefur tekið þátt í fjölda verkefna og er um þessar mundir mitt í einu undir yfirskriftinni „Vatn, engin sóun“. Nú þegar hafa fulltrúar skólans, bæði nemendur og kennarar farið í heimsókn til Slóvakíu og Spánar, en tveir skólar í þessum löndum eru einmitt í samstarfi við FSu í þessu verkefni.
Næstu helgi er von á um 20 manna hópi frá þessum erlendu skólum og munu þau læra ýmislegt um vatn á Íslandi, hvernig það er nýtt og gildi þess hér á landi. Farið verður í ýmsar ferðir, svo sem heimsókn í virkjanir, fjallgöngur, einhverjir fossar skoðaðir og auðvitað hverir.
Ef hann skyldi rigna, þá er það bara hluti af verkefninu!