-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Tillaga um undirbúning að hönnun Sigtúnsgarðs samþykkt

Tillaga um undirbúning að hönnun Sigtúnsgarðs samþykkt

0
Tillaga um undirbúning að hönnun Sigtúnsgarðs samþykkt

Á fundi bæjarráðs Árborgar sem haldinn var 3. ágúst sl. var lögð var fram eftirfarandi tillaga bæjarfulltrúa D-lista:

„Bæjarráð samþykkir að hafin verði undirbúningsvinna að hönnun Sigtúnsgarðs sem samkomusvæðis fyrir íbúa sveitarfélagsins og gesti, þar sem lögð verði áhersla á afþreyingu fyrir fjölskyldur og aðstöðu til skemmtanahalds, s.s. vegna bæjarhátíða, 17. júní og annarra hefðbundinna hátíða. Framkvæmdastjóra sveitarfélagsins er falið að leita tilboða fagaðila í hönnunarvinnu og skipuleggja opinn fund þar sem íbúar geta komið með hugmyndir að útliti og notkun garðsins.“

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista gegn atkvæði bæjarfulltrúa S-lista.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, lagði fram eftirfarandi bókun: „Það er ákaflega jákvætt að bæjaryfirvöld hafi í hyggju að hefja undirbúning við hönnun Sigtúnsgarðsins með þarfir íbúa sveitarfélagsins í huga. Undirrituð setur þó spurningarmerki við að það sé gert á þessum tímapunkti þar sem tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir miðbæinn er í auglýsingaferli. Ef sú tillaga verður að veruleika mun svæðið fyrir miðbæjargarð minnka til muna frá því sem er í gildandi skipulagi frá árinu 2013. Undirrituð telur því skynsamlegt að bíða með hönnun garðsins þar til liggur fyrir hvort nýtt deiliskipulag fyrir miðbæjarreitinn verður samþykkt.“