3.4 C
Selfoss

Fóru upp um tvær deildir á tveimur árum

Vinsælast

Meistaraflokkur Gnúpverja í körfuknattleik var stofnaður á Selfossi vorið 2015 er nokkrir meðlimir félagsins voru saman komnir í páskafríi. Liðið fór upp um tvær deildir, tvö fyrstu tímabilin, og leikur í 1. deild í vetur.

Venjan hefur verið sú að þeir sem hafa lagt stund körfuknattleik hafa fært sig yfir í Ungmennafélag Hrunamanna og æft og leikið undir þeirra merkjum. Engin aðstaða er í Gnúpverjahreppi til körfuknattleiksiðkunnar og hefur þetta því verið ágætis lausn. Þrátt fyrir þetta fyrirkomulag ákváðu Gnúpverjinn Jón Einar Valdimarsson og Hrunamennirnir fyrrverandi Máté Dalmay og Svavar Geir Pálmarsson, ásamt nokkrum hressum drengjum úr Kópavogi, að skrá lið Gnúpverja til leiks í 3. deild KKÍ fyrir keppnistímabilið 2015–2016. Ákveðnar hindranir voru þó í veginum. Finna þurfti húsnæði á höfuðborgarsvæðinu til að æfa og leika heimaleiki í, útvega búninga og ýmislegt annað. Allt hafðist þetta þó.

Liðið hefur frá upphafi fjármagnað iðkun og þátttöku í keppnum að mestu leyti úr eigin vasa en einnig með einhverjum fjárstyrkjum frá fyrirtækjum. Um er að ræða lið samansett af metnaðarfullum ungum strákum sem hafa tröllatrú á verkefninu og eru tilbúnir að leggja allt á sig fyrir liðið.

Góður árangur

Á fyrsta tímabili sínu gerði liðið sér lítið fyrir og sigraði 3. deild KKÍ. Var deildartitillinn tryggður í úrslitaleik gegn Laugdælum en áður höfðu Gnúpverjar tryggt sér sæti í 2. deild með sigri á liði KFÍ b á Ísafirði.

Eins og gefur að skilja varð róðurinn erfiðari fyrir Gnúpverja í 2. deild miðað við tímabilið áður í 3. deild. Engu að síður tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppni um sæti í 1. deild. Gnúpverjar mættu meisturum 2. deildar síðastliðin tvö tímabil, Leikni, í úrslitaleik um sæti í 1. deild og sigruðu með sannfærandi hætti með bestu framistöðu sem Gnúpverjar hafa sýnt á körfuknattleiksvelli. Gnúpverjar töpuðu síðan fyrir sameinuðu liði Hrunamanna/Laugdæla í úrslitaleik 2. deildar sem fram fór á Flúðum.

Gnúpverjar eru eina liðið í íslenskri körfuknattleikssögu sem hefur tekist að fara upp um tvær deildir tvö tímabil í röð. Er liðið ótrúlega stolt af þeim merka árangri en er hvergi nærri hætt, stefnir enn lengra og ætlar sér að halda áfram að skrifa íslenska körfuknattleikssögu.

Framhaldið

Með sæti í næstefstu deild á Íslandi tryggt hefur lið Gnúpverja verið í stífri styrktarþjálfun í sumar og ætlar að mæta með ákefð og áframhaldandi baráttu og dugnaði til leiks á komandi tímabili. Svavar Sigursteinsson í Sporthúsinu sá um styrktarþjálfun Gnúpverja í sumar.

Mikil vinna hefur farið í undirbúning liðsins, en liðið þarf á stuðningi góðra fyrirtækja að halda svo það geti tekið þátt í 1. deild KKÍ. Metnaður liðsins er mikill innan vallar sem utan. Á sama tíma og leikmenn hafa lagt mikið á sig við að koma sér í enn betra leikform hefur mikið verið lagt í að umgjörð félagsins sé eins og best verður á kosið.

Ef fólk hefur áhuga á að leggja Gnúpverjum lið má hafa hafa samband með því að senda tölvupóst í netfangið er info@gnupnation.is.

Búnir að selja 100 ársmiða

Derhúfa, merkt Gnúpverjun, gildir sem ársmiði á leiki liðsins.

Sala á ársmiðum körfuknattleiksliðs Gnúpverja fyrir næsta tímabil hefur farið fram úr björtustu vonum. Allar eitt hundrað derhúfurnar sem voru pantaðar, en þær gilda sem ársmiðar, eru uppseldar. Félagið hefur gert nýja pöntun hjá framleiðanda og er önnur sending af derhúfum væntanleg í septemberlok.

Fyrir þá sem ekki vita þá eru ársmiðar Gnúpverja fyrir tímabilið 2017–2018 í formi glæsilegra derhúfa sem hægt er að versla á vefverslun á gnupnation.is. Vakti þessi nýbreytni mikla athygli og birtist frétt um þetta m.a. í Dagskránni og á dfs.is.

Derhúfan, sem gildir sem ársmiði á alla heimaleiki Gnúpverja i 1. deild KKÍ á komandi tímabili kostar einungis 4.000 kr. Hægt er að panta eintak á vefverslun Gnúpverja.

 

Nýjar fréttir