2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Miðbærinn okkar

Miðbærinn okkar

0

Nú liggur fyrir auglýsing á deiliskipulagi fyrir nýjan miðbæ hér á Selfossi. Sitt sýnist hverjum og er það vel. Sjálfur hef ég mína skoðun á þessu fyrirhugaða skipulagi og get á margan hátt tekið undir þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa undanfarið og virðist þeim fara fjölgandi sem ekki eru á eitt sáttir við það skipulag og þá hugmynd sem nú er auglýst sem verðandi miðbær á Selfossi.

En hvað er það sem helst er gagnrýnt varðandi þessa hugmynd að nýjum miðbæ á Selfossi og á sú gagnrýni rétt á sér ?

Það sem margir virðast staldra fyrst við er útlit væntanlegra bygginga miðbæjarins. Í stuttu máli eiga þær að vera eftirlíkingar af gömlum húsum sem stóðu áður í hinum ýmsu bæjarfélögum vítt og breitt um landið. Á það að gefa bænum meira sögulegt gildi samkvæmt tillögunni og vera aðdráttarafl fyrir ferðamenn en mörgum þykir að hér sé verið að reyna að skreyta sig með stolnum fjöðrum og þykir það miður. Einnig hefur verið bent á að í sveitarfélaginu Árborg sé gömul söguleg byggð sem nær allt aftur að landnámi Íslands. Sú byggð er á Stokkseyri og Eyrarbakka. Ég get heilshugar tekið undir með þeim sem hafa bent á að ef stjórn sveitarfélagsins finnst vanta meiri sögu eða hún sé sýnilegri þá eigi að hlúa að henni þar sem hún á heima og byggja upp sögulegar byggingar þar sem þær stóðu eitt sinn. Í því samhengi mætti til dæmis nefna Lefolii verslunina á Eyrarbakka.

Á það hefur einnig verið bent að miðbæjarskipulagið virðist frekar miða að þörfum ferðamanna og ferðaþjónustunar heldur en þörfum íbúanna. Einnig hefur það verið gagnrýnt að svo virðist vera sem skipulagsvald miðbæjarins verði í höndum þeirra sem standa að þessari hugmynd að nýjum miðbæ en ekki í höndum sveitarfélagsins og verður það að teljast nokkuð sérstakt þar sem sveitarfélagið á stóran part af því landsvæði sem fyrirhugað er að byggja á.

Að auki er að koma fram gagnrýni á nýtingu svæðisins. Margir vilja sjá að á Sigtúnsreitinum verði gert ráð fyrir bæjargarði sem tekið geti við hlutverki Tryggvagarðs, sem löngu er orðin of lítill fyrir bæjarfélagið, en einnig þjónað íbúum á hátíðisdögum líkt og verið hefur undanfarin ár.

Án þess að telja upp alla gagnrýni sem komið hefur fram tel ég það ljóst að í miðbæjarskipulaginu sem nú er í auglýsingu hafi ekki verið tekið nægjanlegt tillit til þarfa eða óska íbúanna. Eftir því sem ég kemst næst hefur engum athugasemdum verið svarað sem gerðar voru við þetta sama skipulag þegar það var auglýst fyrir um ári síðan.

Mín skoðun er því sú að meirihlutinn í stjórn sveitarfélagsins eigi að endurskoða afstöðu sína og stuðning varðandi þessa hugmynd að nýjum miðbæ á Selfossi. Ég tel farsælla að lagst verði í heildstæða greiningu á þörfum og óskum íbúana varðandi uppbyggingu á nýjum miðbæ. Að mínu mati þarf að taka inn fagaðila sem eru bæði hæfir og óháðir til að meta hvernig best væri að skipuleggja nýjan miðbæ með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og í sem mestri almennri sátt svo að þetta verði miðbær sem sameinar íbúana og þeir geti verið stolltir af.

 

Sigurjón Vídalín Guðmundsson,
Dverghólum 28, Selfossi.