Mikil gleði ríkti í Rangárþingi ytra síðastliðinn föstudag þann 19. ágúst þegar síðasti bærinn var tengdur í ljósleiðaraverkefni sveitarfélagsins. Framgangur verksins hefur verið með ólíkindum góður en verktakar hófu störf þann 26. september í fyrra. Unnið hefur verið hvern nýtan dag og er verkinu nú lokið.
Verkefnið er stærsta sinnar tegundar hérlendis fram til þessa enda Rangárþing ytra víðfeðmt sveitarfélag og nánast 100% þátttaka auk þess sem fjöldi sumarhúsa var einnig tengdur. Sveitarstjórn og starfsfólk Rangárþings ytra fögnuðu verklokum með starfsmönnum verktakans Þjótanda og undirverktakans TRS í Menningarhúsinu á Hellu. Þar var stiklað á stóru um helstu áfanga á framkvæmdatímanum, ávörp flutt og glaðst yfir góðu verki.