1.7 C
Selfoss

Tvöfalt stórafmæli í Múlakoti í Fljótshlíð

Vinsælast

Í Múlakoti í Fljótshlíð er á þessu sumri minnst tveggja stórafmæla sem tengjast staðnum.

Sögusetrið á Hvolsvelli hefur haldið myndarlega upp á að 120 ár eru liðin frá fæðingu Ólafs Túbals; listmálara og lífskúnstners, bóhems og bónda í Múlakoti. Sýning á nokkrum verkum Ólafs var opnuð í Sögusetrinu 8. júlí, en henni lýkur 20. ágúst. Því eru síðustu forvöð að skoða sýninguna, en verkin á henni eru ýmist í eigu Skógasafns, eða einstaklinga, nátengdum Múlakoti.

Garður Guðbjargar Þorleifsdóttur í Múlakoti á sömuleiðis 120 ára afmæli á þessu sumri. Garðurinn, sem nú er 1000 fermetrar, skartar sínu fegursta í sumar, enda hefur mikil vinna verið lögð í endurreisn hans. Nemendur Garðyrkjuskóla ríkisins hafa þrisvar komið í vinnuferðir til að hlúa að trjágróðri, runnum og grasflötum, en heimamenn sjá um daglega umhirðu. Fjölmargir hafa lagt leið sína í garðinn í sumar, en hann er öllum opinn. Eins hafa fjórtán hópar fengið leiðsögn um húsið á árinu, þar af tveir danskir hópar, alls 60 manns, sem fetað hafa i fótspor danska listmálarans Johannes Larsen um Ísland, en Ólafur Túbals var aðstoðarmaður hans í tvö sumur, 1927 og 1930, meðan Larsen teiknaði myndir af söguslóðum Íslendingasagna.

Vinafélag gamla bæjarins i Múlakoti stendur fyir Ljósakvöldi í septembersælu, laugardagskvöldið 2. september. Þar verður minnst þessara tveggja afmæla og ýmislegs sem tengist sögu staðarins, flutt ávörp, leikið á harmonikku, sungið og notið kaffiveitinga og ástarpunga úti í garði, sem verður upplýstur í anda gamla tímans. Allir eru hjartanlega velkomnir í Múlakot þetta kvöld sem endranær. Aðgangseyrir, sem er 1.000 krónur, rennur til uppbyggingar gamla hússins.

Nýjar fréttir