5 C
Selfoss
Home Fréttir Sigtúnsgarður og uppbygging miðbæjar

Sigtúnsgarður og uppbygging miðbæjar

0
Sigtúnsgarður og uppbygging miðbæjar
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar. Ljósmynd: ÖG.

Upp á síðkastið hefur verið umfjöllun á samfélagsmiðlum um stærð Sigtúnsgarðs í tengslum við tillögu að nýju skipulagi fyrir miðbæ Selfoss. Í tilefni af þessu vill undirrituð koma eftirfarandi á framfæri:

Sigtúnsgarður verður um 19.700 fermetrar að stærð eftir breytinguna.

Torg, aðliggjandi garðinum og torg framar á miðbæjarsvæðinu, ásamt vistgötum sem hægt verður að loka fyrir umferð á hátíðum og nýta sem hátíðarsvæði, verða um 5.300 fermetrar.

Í næstu viku mun Sveitarfélagið Árborg gera verðkönnun meðal hönnuða til að velja samstarfsaðila til að hanna útivistarsvæði í Sigtúnsgarði fyrir íbúa sveitarfélagsins og gesti þeirra. Í september verður síðan haldinn opinn íbúafundur þar sem öllum gefst kostur á að taka þátt í hugmyndavinnu varðandi hönnun garðsins sem samkomusvæðis og útivistarsvæðis fyrir fjölskyldur.

Sigtúnsgarður býður upp á marga möguleika og stærð hans er slík, þrátt fyrir að byggt verði upp á miðsvæði, að þar verður hægt að koma fyrir sviði og áhorfendasvæði, stóru samkomutjaldi, leiktækjum, bekkjum, borðum o.fl. Á hátíðinni Sumri á Selfossi 2016 lét sveitarfélagið taka myndir með dróna af hátíðarsvæðinu. Myndir voru teknar á meðan á barnadagskrá stóð um miðjan daginn, við sléttusönginn og þegar flugeldasýningin stóð yfir. Hátíðin var mjög fjölmenn og veðrið lék við gesti. Á myndunum má glögglega sjá að einungis afar lítill hluti garðsins er nýttur til hátíðarhaldanna og að rúm er fyrir mun fleiri gesti, þó svo að komið yrði fyrir leiktækjum og öðru sem nýtist til afþreyingar.

Þá munu torgin tvö nýtast sem framlenging á hátíðarsvæði, þar má halda minni tónleika, koma fyrir tjöldum eða kynningarbásum, auk þess sem unnt verður að loka fyrir bílaumferð inn á miðbæjarsvæðið og nýta göturnar með sama hætti. Árleg móttaka jólasveinanna úr Ingólfsfjalli getur farið fram á skjólsælu torgi í nýjum miðbæ.

Það er tilhlökkunarefni að fá fallega hannaðan garð miðsvæðis í ört vaxandi bæ, sannkallaða vin þar sem fjölskyldur geta notið samvista við leik og íbúar safnast saman ásamt gestum á hátíðarstundum. Þetta er mögulegt vegna þess að Sveitarfélagið Árborg keypti árið 2011 land á miðbæjarsvæðinu og losnaði þar með undan þeirri kvöð sem samið hafði verið um í apríl 2006 að byggðir yrðu 24.800 fermetrar á svæðinu, þar með talið 8.800 fermetrar inn vestanverðan miðbæjargarðinn að Sunnuvegi, eða eiga yfir höfði sér stefnu vegna skaðabótakröfu að fjárhæð 531.000.000 kr. ella.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar