Sumarlestrarsprell fyrir hressa krakka verður í Bókasafninu í Hveragerði í dag fimmtudaginn 17. ágúst kl. 16:30. Gunnar Helgason kynnir væntanlega bók og spjallar við krakkana, boðið verður upp á hressingu, farið í ratleik með Harry Potter þema og dregið í sumarlestrarhappdrættinu. Allir krakkar eru velkomnir og foreldrar líka.
Á sýningunni sem prýðir veggi safnsins eru spjöld með viðar- og marmaramálun eftir Helga Grétar Kristinsson, málarameistara. Einnig eru nokkrar myndir frá Hafnarfjarðarkirkju en þar málaði Helgi m.a. kirkjuorgelin í marmaralíki. Þess má geta að Helgi málaði Kotstrandarkirkju fyrir nokkrum árum.
Á föstudaginn opnar bókamarkaður á bókasafninu. Þar má finna marga „gullmola“. Bókamarkaður hefur verið árviss á Blómstrandi dögum frá 2004 og eins og venjulega má finna á honum allskonar bækur á fínu verði.
Héraðsskjalasafn Árnesinga hefur sent Bókasafninu fleiri ljósmyndir til greiningar. Fólk er velkomið að líta inn og athugaði hvort það þekkir einhverja á myndunum. Það verður kaffi á könnunni og opið föstudag kl. 13-18:30, laugardag kl. 11-17 og sunnudag kl. 13-17.
Bókabæirnir austanfjalls setja upp Ljóðakassa við bekkinn undir „Hlyninum eina“ á Heiðmörkinni á sunnudeginum kl. 14 en ljóðakassinn verður „vígður“ með því að ljóðskáld úr Hveragerði lesa eigin ljóð. Allir eru velkomnir að hlusta og jafnvel að lesa upp fyrir viðstadda. Meiningin er að þeir sem vilja geti stungið ljóði í kassann til aflestrar fyrir þá sem vilja hvíla sig á bekknum og njóta ljóðanna. Bókasafnið mun fylgjast með kassanum og setja í hann nokkrar ljóðabækur.