-1.6 C
Selfoss

Lindex verður í nýjum miðbæ Selfoss

Vinsælast

Lóa Dagbjört Kristjánsdótir og Albert Þór Magnússon, umboðsaðilar Lindex á Íslandi, sem byrjuðu rekstur fyrirtækisins í bílskúr við árbakkann á Selfossi 2010, stefna að því að opna Lindex-verslun á miðbæjarreitnum á Selfossi næsta sumar. Gerður hefur verið samningur við Sigtún ehf. um leigu á 400 fermetra verslunarrými í húsunum Edinborg og Birninum svo fremi að deiliskipulag verði staðfest nú í haust. Sex til átta starfsmenn verða ráðnir til Lindex á Selfossi en hjá Lindex á Íslandi starfa nú um 100 manns.

„Þar sem upphaf Lindex á Íslandi má rekja til reksturs á Selfossi finnst okkur Lóu það dálítið táknrænt að snúa aftur til heimahaganna með tískuupplifun á heimsmælikvarða. Við vonum að Sunnlendingar muni taka okkur fagnandi en nýlega opnuðum við  Lindex-verslun í Reykjanesbæ. Þar fóru móttökurnar fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Albert Þór.

Tölvuteikning af nýja miðbænum á Selfossi. Lindex-verslunin verður í kastalahúsinu og húsinu hægra megin við það.

Lóa leggur áherslu á að endurbygging í gömlum stíl á nýja miðbæjarreitnum á Selfossi sé einstakt verkefni á Íslandi og þótt víðar væri leitað. „Okkur þótti þetta strax spennandi. Við höfum verið hér ásamt forstjóra Lindex og við vorum öll sammála um að á Selfossi myndi þessi gamli stíll úr byggingarsögu víða á landinu og nýja Lindex stefnan falla afar vel saman. Innréttingahönnunin byggir á björtu yfirbragði, ólíkum litbrigðum hvítra lita og svartra auk viðaráferðar, sem gefur versluninni skandinavískt yfirbragð. Hið svonefnda „clean concept“ nær einnig til umhverfis- og sjálfbærnistefnu Lindex sem við erum afar stolt af“, segir Lóa.

Þess má geta að Edinborgarverslun var í Hafnarstræti í Reykjavík en húsið brann í brunanum mikla 1915. Hótel Björninn stóð þar sem hringtorgið við A. Hansen í Hafnarfirði er nú. Þessi hús eru meðal þeirra sem munu rísa á Selfossi í vetur gangi áætlanir eftir.

Lindex er ein stærsta tískufatakeðja Norður Evrópu með um 500 verslanir í 16 löndum. Hún býður upp á tískufatnað fyrir konur, undirföt, snyrtivörur og fylgihuti, sem og fatnað fyrir börn og unglinga á hagkvæmu verði. Lindex hefur lagt mikla áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð og hefur fyrirtækið sett sér markmið að árið 2020 verði 80% af allri framleiðslu þess sjálfbær. Langstærstur hluti af barnalínu Lindex er framleiddur úr lífrænni bómull og endurunnum efnum og við hönnun eru þarfir barnanna í fyrirrúmi. Fatnaðurinn á að vera þægilegur, mjúkur og endingagóður. Fyrirtækið hefur einnig verið þekkt fyrir vinnu sína gegn kynjamisrétti í fátækustu ríkjum heims og hjálpað konum að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu í gegnum verkefni eins og HERproject og WEWomen by Lindex.

Lindexverslanir eru nú í Smáranum í Kópavogi, í Kringlunni og við Laugaveg í Reykjavík, Glerártorgi á Akureyri og Krossmóum í Reykjanesbæ. Vildarpunktakerfi Lindex nýtur sívaxandi vinsælda og í þessum mánuði opnar fyrirtækið vefverslun á íslensku, lindex.is.

Nýjar fréttir