-3.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Grænmetissúpa og grillað uxakjöt frá Litla-Ármóti

Grænmetissúpa og grillað uxakjöt frá Litla-Ármóti

Grænmetissúpa og grillað uxakjöt frá Litla-Ármóti
Ragnar Finnur Sigurðsson.

Ragnar Finnur Ragnarsson er matgæðingur vikunnar.

Takk fyrir áskorunina Birgir!

Ég sá að nautakjötið fékk góða umfjöllun hjá áskoranda mínum en betur má ef duga skal og ætla ég því að hafa fyrir viðfangsefni gras og grasbíta. Fyrst vil ég kynna til sögunar alveg frábæra súpu sem klikkar aldrei þrátt fyrir, að margra áliti, óspennandi innihald. Meginuppistaða hennar eru gulrætur en ætar gulrætur ættu að vera að koma í verslanir um þessar mundir og jafnvel að vera tilbúnar í görðum hér og þar.

Innihald: 
Olía
1 kg rifnar gulrætur frá Fljótshólum
2-4 maukaðir/fínskornir hvítlauksgeirar
Pipar/salt
2 lítrar vatn
2-4 grænmetisteningar
1-2 fiskiteningar
250 gr MS rækjusmurostur
0,25-1 lítri af MS rjóma

Steikja 1 kg af rifnum gulrótum í olíu, ásamt 2-4 maukuðum eða fínskornum hvítlauksgeirum, þannig að verði létt brúnað. Piprað og saltað eftir smekk.

Setja þetta í pott með 2 lítrum af vatni, ásamt 2-4 grænmetisteningum og 1-2 fiskiteningum, sjóða.

Þegar súpan sýður þá er óhætt að setja eina dós af rækjusmurosti frá MS og rjóma eftir smekk fljótlega á eftir.

Þegar smurosturinn hefur samlagast súpunni þá er kominn tími til að borða.

Aðalrétturinn væri þá grillað uxakjöt, eldað að mínum sið sem er afar einfaldur.

Innihald:
Uxakjöt frá Litla-Ármóti 1-4 kg.
Caj P. grillolía.
Salt og pipar.

Meðlæti:
1-4 kg íslenskar kartöflur
2 dósir maís eða maísstöngull á mann.

Kjötið skorið þegar það er þiðið í 2-4 cm breiða bita, 4 l frystiplastpoki er opnaður og í hann settur t.d. Caj P. grillolía ásamt pipar og salti, sneiðarnar eru svo settar í hann og látnar verkast þar í þann tíma sem gefst fyrir eldun. Kjötið er svo sett á heitt grillið og grillað með frjálsri aðferð. Með kjötinu má svo bera fram kartöflur, grillaðar berar á grilli eða með álpappír fyrir þá sem hafa gaman af og tíma fyrir föndur. Maís er líka góður með þessu hvort sem að heilir maísstönglar eru grillaðir eða niðursuðudós opnuð.