5 C
Selfoss

Gróður má ekki trufla umferð

Vinsælast

Á heimasíðu Hveragerðisbæjar er góður pistill þar sem íbúar eru minntir á nauðsyn þess að klippa trjágróður sem vex út á gangstéttar og götur og veldur óþægindum og hættu fyrir umferð. Sérstaklega er tekið fram að þeir sem búa á hornlóðum þurfi að gæta að því að gróður byrgi ekki sýn þeirra sem um gatnamótin fara. Þessi pistill á vel við alls staðar í þéttbýli þar sem gróður er við götur og gangstíga.

Trjágróður sem vex út fyrir lóðarmörk getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Hjá Hveragerðisbæ eru garðeigendur hvattir til að klippa tré sín svo þau hvorki hindri vegfarendur, hylji umferðarskilti, né dragi úr götulýsingu. Ekki má gleyma að á veturna þarf að vera hægt að ryðja snjó og því þarf að gera ráð fyrir 2,8 metra hæð undir trjágreinar á gangstígum til að snjóruðningstæki komist undir á þeim dögum sem trjágreinar slúta undan snjóþunga.

Garðeigendur eru einnig minntir á byggingarreglugerð nr. 112/2010 gr. 7.2.2 en þar segir m.a að ekki megi planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 m. Einnig segir: Við staðsetningu trjáa á lóð sem ætlað er að vaxi frjáls skal taka tillit til skuggavarps á viðkomandi lóð og nágrannalóðum. Sé trjám eða runnum plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skal hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 m, nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað. Ef lóðarmörk liggja að götu, gangstíg eða opnu svæði má trjágróður ekki ná meiri hæð, enda komi til samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis. Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.

Nýjar fréttir