Heimilisdýrum hefur fjölgað nokkuð undanfarið í Veiðisafninu á Stokkseyri. Er þar um að ræða sendingu uppstoppaðra dýra frá Suður-Afríku, alls átta talsins. Það eru leirbukkur (Nyala), antilópa í heilu lagi ásamt Impala antilópum, vörtusvín, skrúfhyrna (Kudu) og gnýr (Blue Wildebeest) ásamt framparti af zebrahesti sem er frístandandi á gólfi. Öll dýrin hafa nú verið uppsett í sýningarsölum Veiðisafnsins.
Margir safngestir Veiðisafnsins hafa beðið eftir þessari sendingu því von hefur verið á þessum dýrum um nokkurt skeið. Einnig hafa verið settar inn 300 nýjar ljósmyndir í myndamöppur safnsins sem hafa notið mikilla vinsælda gesta. Hlutfall gesta er koma aftur og aftur á Veiðsasfnið er mjög hátt. Kom það í ljós strax á fyrstu árum safnsins.
Miklar breytingar hafa átt sér stað frá opnun safnsins árið 2004. Bætt hefur verið í safnkostinn jafnt og þétt. Má þar nefna uppstoppuð dýr, skotvopn og veiðitengda muni. Ekki má gleyma íslensku veiðimönnunum sem skipa sérstakan sess í safninau. Þar eru persónulegir munir, ljósmyndir og byssur frá landsþekktum veiðimönnum.
Reynt var í annað sinn að veiða hyenu í síðustu veiðiferð en gekk ekki. Það verður reynt aftur og einnig má nefna það að yngsta kynslóðin spyr mikið um flóðhest sem einnig stendur til að reyna að ná í. Börn eru vel meðvituð í dag um dýraríkið og hafa gaman af því að skoða dýrin í Veiðisafninu í návígi, sem margir lýsa sem einstakri upplifun.
Veiðisafnið er opið alla verslunarmannahelgina frá kl. 11:00 til kl. 18:00. Nánari upplýsingar um Veiðisafnið á Stokkseyri má finna á www.veidisafnid.is.