-4.4 C
Selfoss

Ég man Njálu aldrei nógu vel

Vinsælast

Aðalsteinn Geirsson, lestrarhestur Dagskrárinnar þessa vikuna,  býr á Selfossi en fæddist í Vesturbænum í Reykjavík og ólst upp í Hlíðunum áður en allar götur voru malbikaðar. Hann er í móðurætt úr Norður-Þingeyjarsýslu og af Vestfjörðum en í föðurætt úr Hafnarfirði og Biskupstungum. Aðalsteinn lauk embættisprófi í örverufræði frá Háskólanum í Bergen og vann nokkuð við kennslu en lengst af við gæðaeftirlit með matvöru og er nú að eigin sögn „lífeyrishirðir sem sinnir ýmsum tilfallandi verkum.“

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Árbók Ferðafélags Íslands 2017 og skáldsagan Meistarinn og Margaríta eru núna næst bólinu. Venjulega glugga ég í nýjustu Árbókina í nokkrar vikur eftir að hún kemur út. Sú nýjasta er um Vestfjarðakjálkann en mest um Ísafjarðardjúp. Móðurætt mín hefur búið þar öldum saman og ýmislegt forvitnilegt um landshlutann er í bókinni. Þar er þó ekki hreinsað til kringum héraðið Vestfirði, sem mér var innprentað að næði frá og með Patreksfirði að Djúpinu sem hæfist í Álftafirði. Sumum finnst tilhlýðilegt að troða þar fimm sýslum. Það þykir ekki góð latína hér um slóðir að tala um Ölfus og Hreppa í Flóa en þessar sveitir eru þó allar í sömu sýslunni. Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov var á dagskrá í leshringnum í vetur en ég er ekki búinn með hana. Sá einhvers staðar að hún væri dulbúin háðslýsing á hvernig leyniþjónusta Stalíns plantaði sönnunargögnum hjá óæskilegu fólki. Öðru hverju stauta ég mig svo fram úr franskri málfræði á þýzku af því að ég er að reyna að læra þessi tungumál. Síðan blaða ég af og til í Mannkynssögu AB og einhverju fleiru.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Mér þykir mest varið í skemmtilega skrifaðar ævisögur og vil að sem réttast sé sagt frá. Þess vegna er ég ósáttur við höfunda ágætra bóka um Hallgrím Pétursson og Matthías Jochumsson því að þar kemur ekki nógu vel fram hvað er satt og hvað skáldað. Einnig líka mér gamlar ferðasögur um landið og sagnaþætti um fólk sem uppi var á fyrri öldum eins og Merkir Íslendingar, Íslenzkt mannlíf Jóns Helgasonar, Söguþættir landpóstanna og Hrakningar og heiðarvegir.

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Þær eru fremur frjálslegar og óskipulagðar í seinni tíð. Er oftast með tvö til fjögur samfelld verk undir og klára þau á löngum tíma eða ekki. Spái svo í eitthvað skemmtilegt þess á milli. Er núna að gramsa í ýmsu um Árnessýslu hér og þar. Öðru hverju les ég svo einhverja Íslendingasögu til dæmis Njálu sem ég man aldrei nógu vel og við hvern lestur er ég alltaf jafnhissa á hvað dómstörfum virðist hafa farið lítið fram. Reynt er enn að rugla dóminn og villa um fyrir honum, þjóna ranginum en ekki réttinum.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?

Get varla gert upp á milli Ævintýrabókanna með Finni, Dísu, Jonna, Önnu og Kíkí og bókanna um Árna í Hraunkoti. Málið á Árnabókunum var í allt öðrum klassa en það skildi ég ekki þá. Þetta eru sögur af skynsömum, athafnasömum krökkum og ungu fólki. Einnig held ég mikið upp á fyrstu fullorðinsbókina sem ég las Konuna í dalnum og dæturnar sjö eftir Guðmund Hagalín sem mamma vísaði mér á þegar ég var 11 eða 12 ára. Hún er um magnað fólk.

Hefur einhver bók haft sérstaklega mikil áhrif á þig?

Af bókum sem ég hef lítið lesið er það Biblían og einkum Nýja testamentið þar sem er að finna rætur vestrænna siðferðishugmynda hvaðan sem þær hugmyndir koma upprunalega. Í Gamla testamentinu er ýmislegt gagnlegt en svo er annað sem er valkvætt að trúa og hefur það óbein áhrif á mann. Því var síðan snúið upp á Araba og er alls ekki áhrifalaust í því formi. Af bókum sem ég hef lesið væri það kennslubók í örverufræði því hún réði úrslitum um ævistarfið. Sögukaflar af sjálfum mér eftir Matthías Jochumsson kemst næst þessu. Hispurslausar og lærdómsríkar endurminningar um baráttu við mannlegt eðli. Fékk hana í fermingargjöf með þessum orðum: „Þér finnst kannski ekkert varið í hana núna, en þú kannt að meta hana seinna.“ Svo hefði ég þurft að lesa Harmsögu ævi minnar eftir Jóhannes Birkiland þrjátíu árum fyrr. Höfundurinn lýsir því hvernig ofdekur og ofvernd getur eyðilagt fólk, einnig kennir hann föður sínum um misheppnað líf sitt. Þessari bók hefði Kiljan getað breytt í listaverk.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Varla ljóðabækur. Ljóðin sem ég hef samið eru einkum óbirtingarhæfar kersknivísur. Af því að ég er samt ekki illgjarn að eðlisfari hefðu það sennilega orðið fremur skemmtilegar smásögur.

Nýjar fréttir