-7 C
Selfoss

Hveragerði er ört vaxandi sveitarfélag

Vinsælast

Sólin skein skært í Hveragerði síðastliðinn föstudag þegar Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri var tekin tali. Hún var fyrst spurð hvað væri helst í gangi hjá Hveragerðisbæ um þessar mundir. Sagði hún að fjölmörg verkefni væru í gangi en þeirra stærst væri bygging á nýjum leikskóla sem áætlað er að taka í notkun í október. Þetta er langstærsta verkefni sem bærinn hefur ráðist í í áraraðir eða allt frá því viðbygging var byggð við grunnskóann á sínum tíma. Framkvæmdin nemur um 700 miljónum króna, en húsið er um 1.000 fermetrar að stærð og sex deildir. „Við gerum þetta í samvinnu við Ölfusinga sem eiga hlut í leikskólanum og tryggja sér þannig pláss fyrir börnin í dreifbýlinu. Þetta er stór biti fyrir lítið sveitarfélag. En um leið við ég ítreka að þó ég segi að við séum lítið sveitarfélag þá erum við auðvitað ekkert lítil á íslenskan mælikvarða. Við erum ört vaxandi og eitt af stærri sveitarfélögum landsins,“ segir Aldís.

Fólki líður strax vel
Í framhaldi af tali um stærð sveitarfélaga segir Aldís að lögð sé rík áhersla á að Hveragerði sé heimilislegt sveitarfélag. Þau séu lítið samfélag þar sem fólk þekkist og því líði vel. „Ég verð ekki vör við annað en að það hafi virkað ágætlega. Bæjarstjórnin leggur ákveðnar línur um uppbyggingu, rekstur og framkvæmdir en það eru fyrst og fremst íbúarnir sjálfir sem búa til bæjarbraginn og við höfum verið svo lánsöm að hér eru svo frábærir íbúar. Þeir taka vel á móti þeim sem eru nýfluttir og fólki líður strax vel. Eitt af einkennum bæjarins hefur alltaf verið að við heilsum hvert öðru út á götu. Fólk er kurteist og notalegt hvert við annað. Við leggjum verulega mikið upp úr því að vera lítið og huggulegt þorp í nánum tengslum við þá fallegu náttúru sem hér er.“ Hún bætir við að lögð sé gríðarleg áhersla á fallegt umhverfi og gróður og að víða sé búið að búa til notalega sælureiti sem hægt er að njóta allt árið um kring. Þess má geta að Hvergerðingar hafa í viðhorfskönnun Capacent reynst vera í hópi ánægðustu íbúa á Íslandi og vermir bæjarfélagið toppsætin í fjölmörgum flokkum sem kannaðir voru.

Ný hverfi og nýjar götur
Af öðrum verkefnum á vegum bæjarins nefnir Aldís að þau séu m.a. að skipuleggja ný hverfi og vinna í nýjum götum. Í vor var t.d. úthlutað 14 lóðum fyrir 28 íbúðir í parhúsum og það hafi verið slegist um lóðirnar. Framkvæmdir gangi vel og enginn hefur skilað lóð. Allir ætla af stað, eru búnir að ganga frá samningum og sumir byrjaðir að grafa. Hún nefnir einnig samning sem nýverið var gerður við Suðursali ehf. varðandi uppbyggingu á Eden-lóðinni. „Það er allt útlit fyrir að það fari í gang um leið og deiliskipulag reitsins hefur verið samþykkt í haust. Á þeim reit er um að ræða 70 íbúðir, íbúðir sem mikil þörf er fyrir á markaðnum. Þær verða ódýrar og hentugar fyrir smærri fjölskyldur, bæði ungar fjölskyldur og þá sem eru að minnka við sig. Stefnt er að því að byggingaraðferðin verði hagstæð þannig að fólk geti ráðið við að kaupa þær.“

Þurfum að hafa fjölbreyttar gerðir húsa
Talið berst aftur að stærð sveitarfélaga í tengslum við nýjar götur og ný hverfi. Aldís segir að það sé enginn tilgangur í sjálfu sér að stækka og stækka. Þau vilji hafa fjölbreyttar gerðir húsa og íbúða til þess að geta boðið fjölbreyttan hóp íbúa velkominn til bæjarins. „Hér verða að vera til litlar viðráðanlegar íbúðir. Síðan verðum við auðvitað að hafa stærri lóðir fyrir stóru einbýlishúsin. Þar erum við með á teikniborðinu götu austast í byggðinni fyrir neðan nýjustu götuna þar sem bæjarstjórnar bíður að ákveða hvort úthlutað verður. Þar verða sannkallaðar glæsilóðir sem ég efast ekki um að slegist verður um. Þar verða 18 einbýlishús á besta stað, hallandi niður að Varmá og með stórkostlegt útsýni yfir sveitina og sólarupprásina beint í stofugluggann.“

Sjáum fram á mikla fjölgun
En hvað er helst framundan á næstu mánuðum og misserum í Hveragerði? Bæjarstjórinn segir að allt stefni í áframhaldandi uppbyggingu og að þau sjái fram á þó nokkuð mikla fjölgun íbúa. „Bæjarstjórn er með það markmið að gera búsetuskilyrðin sífellt betri. Sífellt fæðast nýjar góðar hugmyndir. Núna síðast vorum við að koma til móts við barnafjölskyldur í grunnskólanum með ókeypis ritföngum. Svo gefum við barnshafandi starfsmönnum frí á launum mánuði fyrir skráðan fæðingardag, en það hefur mælst afar vel fyrir. Þannig að það er ýmisleg sem við gerum. Við efumst ekki um að íbúum á eftir að fjölga hér hjá okkur enda er afar gott að búa í Hveragerði.“ Aldís bætir við að fjölguninni þurfi þó að stýra. Það sé ekki akkur í sjálfu sér að verða stór heldur ætli þau að gera bæjarfélagið eins og gott og kostur er og vinna markvisst í þá átt.

Gott samstarf og allir flokkar samstíga
Gott samstarf hefur verið í bæjarstjórninni í Hveragerði á þessu kjörtímabili og segir Aldís að allir flokkar séu samstíga í vel flestum málum. Ef það sé einhver ágreiningur geti hann alveg eins verið á meðal meirihlutamanna eins og við fulltrúa annarra flokka, það sé mikil samvinna á milli aðila. „Við þurfum auðvitað að halda áfram uppbyggingunni. Við erum að klára aðalskipulagið þ.e. breytingu og endurskoðun. Bæjarfélagið var að leysa til sín erfðafestu á Friðarstöðum og þar myndast möguleikar sem við höfum ekki áður haft tækifæri á að vinna. Það er mikilvægt að það verði unnið vel úr málum á því landi þannig að sú perla sem Varmá er og þeir staðir sem í henni eru í Friðarstaðalandinu, eins og Baulan sem Hvergerðingar kannast vel við sem baðstað, verði notuð þannig að allir geti nýtt og notið. Við verðum að vanda okkur við skipulagið þannig að þarna verði ekki til lóðir fyrir einhverja örfáa útvalda heldur að við búum til útivistarsvæði fyrir alla meðfram ánni um leið og byggt verður á þessu svæði. Það verður verkefni næsta kjörtímabils klárlega þ.e. að vinna að uppbyggingu á þeim reit og svæðum þar í kring og áfram inn í dal.“ segir Aldís.

Heilsulind í Laugaskarði
Framkvæmdir við sundlaugina í Laugaskarði er eitt af þeim verkefnum sem hefur verið á dagskrá hjá bæjarstjórninni í Hveragerði og segir Aldís að þau verði að fara að komast í það. „Við höfum ætlað okkur að fara í endurbætur á sundlauginni og höfum verið að stíga lítil skref í þá átt. Ástæðan er sú að að þessar framkvæmdir eru mjög dýrar og eftir því sem komið er nær framkvæmdastiginu kemur í ljós að þær eru dýrari en haldið var áður. Þetta er gömul bygging og við viljum vernda yfirbragðið og gera þetta mjög vel. Það stóð til að hefja framkvæmdir þar núna 2017 en það hefur frestast. Það verður líka verkefni sem við þurfum að standa fallega að. Við þurfum að vinna að uppbyggingu þeirrar heilsulindar sem við sáum fyrir okkur þar,“ segir Aldís að lokum.

Nýjar fréttir