-3.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Sous vide eldaður nautavöðvi og silungur í kókos- og eldpiparbaði

Sous vide eldaður nautavöðvi og silungur í kókos- og eldpiparbaði

Sous vide eldaður nautavöðvi og silungur í kókos- og eldpiparbaði
Birgir Aðalbjarnarson.

Birgir Aðalbjarnarson er matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á því að þakka Sigfúsi fyrir að tilnefna mig. Maður kemur aldrei að tómum kofanum hjá honum, hvorki hvað varðar mataruppskriftir (appelsínusósan, maður lifandi!) eða bílaviðgerðir. Hann á orðið ansi margt inni hjá mér blessaður maðurinn (reddað bílnum hjá mér nokkrum sinnum) og þess vegna er ekki úr vegi að byrja á því sem ég hef hug á að bjóða honum í staðinn; nautakjötsmáltíð. Þar sem ég hef nýverið fengið Sous Vide græju, geri ég náttúrulega svoleiðis.

Nautavöðvi settur í hæfilegar sneiðar fyrir hvern og einn, með hvítlaukspipar og rósmarín og góðu smjörstykki í poka. Sous vide græjan er sett á 54,5 gráður í svona einn og hálfan tíma. Þegar steikin er búin að vera þetta lengi er Weber-inn náttúrulega kominn í tæplega 300 gráður. Við rétt kynnum Weber-inn fyrir nautinu (eða öfugt) í svona 30 sekúndur á hvorri hlið. Látum þetta svo bíða á borðinu meðan gott Rioja vín er drukkið niður í hálft glas, þá er nautið tilbúið. Þá er nauðsynlegt að salta það þokkalega (eða eftir smekk) og meðlætið skiptir ekki svo miklu máli, því nautið er svo gott.

Eitthvað var Sigfús að gera sig stóran með stórveiðimennsku sinni og kom með einhverja laxa uppskrift. Þá get ég nú varla verið minni maður og kem því með uppskrift sem sæmir silungsveiðimanni eins og ég er. En í þá uppskrift er nauðsynlegt að hafa ein fjögur til fimm silungaflök, ekki verra ef þau eru ættuð af Skagaheiði. Skella þeim í álbakka og salta og pipra, beinhreinsa (ef ykkur langar ekki í óæskilega tannstöngla), hella yfir flökin kókosmjólk þannig að hún hylji þau nokkurn veginn, setja svo eins margar teskeiðar af chili paste hingað og þangað yfir flökin og þið treystið ykkur til. Til að toppa meistaraverkið sem þessi réttur er þá eru settar yfir nokkrar lime-sneiðar sem vinna svo skemmtilega á móti sterka bragðinu af chili-inu. Það er eins með þetta og hinn réttinn að meðlætið skiptir minna máli því hann er svo góður einn og sér.

Mig langar til þess að tilnefna Ragnar Finn Ragnarsson bónda á Litla-Ármóti og tiltölulega nýjan Sunnlending að vera matgæðingur vikunnar. En ég veit að hann eldar og skaffar nautakjöt sem allir gætu verið stoltir af.