Það er ekki á hverjum degi sem maður upplifir annað eins örlæti og börnunum í leikskólanum Álfaborg hefur verið sýnt, af svo mörgum hérna í Bláskógabyggð eftir að mygla kom upp í leikskólanum fyrir ári síðan.
Við fengum inni í Bláskógaskóla í Reykholti þar sem vel var tekið á móti okkur. Útbúið var bráðabirgða leiksvæði fyrir börnin og þar sem við vissum ekki hversu lengi við yrðum í grunnskólanum, var einungis settur upp sandkassi á leiksvæðið. Fljótlega kom þó í ljós að við förum ekki aftur í leikskólann, heldur verður byggður nýr leikskóli og það tekur sinn tíma. Við erum með mjög öflugt foreldrafélag hér í Álfaborg.
Þar sem við vorum einungis með sandkassa á lóðinni og komið hafði í ljós að við yrðum í grunnskólanum, þangað til leikskólinn verður tilbúinn, var kominn tími til að skoða hvað væri best að gera. Börnin höfðu vissulega aðgang að gömlu lóðinni en það var óhentugt að fara með börnin þangað og erfitt með yngstu börnin.
Foreldrafélagið fundaði og kom síðan að máli við okkur og sagði okkur að Hótel Geysir væri tilbúin að styrkja foreldrafélagið um starfsfólk, tæki, og það efni sem þyrfti, til þess að flytja leikföngin af gamla leiksvæðinu á það nýja. Ég átti ekki orð yfir þessa hlýju og velvild sem Hótel Geysir sýndi okkur. Á tæpum þremur dögum var búið að flytja öll leiktækin og setja þau upp og allt komið á sinn stað. Auk þess komu nokkrir foreldrar og hjálpuðu til. Ég vil þakka Hótel Geysi kærlega fyrir stuðninginn við börnin okkar í leikskólanum og foreldrafélaginu og þeim foreldrum sem komu og hjálpuðu til, fyrir allt sem þau gerðu. Það voru glöð börn sem fóru út að leika sér í leiktækjunum þegar allt var tilbúið.
Regína Rósa Harðardóttir, leikskólastjóri Álfaborgar