Gjaldtaka hófst á bílastæðum við Seljalandsfoss á föstudag í síðustu viku. Gjaldið er 700 kr. fyrir bíl í stæði yfir daginn og 3.000 kr. fyrir rútur. Þess má geta að á Þingvöllum er rukkað 500 kr. fyrir stæði og 3.000 kr. fyrir rútur. Síðar í sumar er fyrirhugað að rukka fyrir stæði í Skaftafelli og fleiri staðir eru til athugunar.
Gjaldinu sem innheimt er við Seljalandsfoss er ætlað til að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri bílastæða, kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu svo sem salernisaðstöðu, gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki. Gjaldtakan er samstarfsverkefni landeigendafélagsins Seljalandsfoss ehf. og Rangárþings eystra.
Ljóst er að leggja þarf í tugmilljóna króna fjárfestingar í tengslum við uppbyggingu á aðstöðu við Seljalandsfoss. Áætlað er að yfir 500.000 ferðamenn hafi komið að fossinum á síðasta ári og því mikil þörf á góðri aðstöðu við fossinn og í nágrenni hans.