2.3 C
Selfoss

Hús með sögu

Vinsælast

Við Eyrargötu á Eyrarbakka stendur húsið Breiðaból, sem verið er að lagfæra að utanverðu og nú er þakið á döfinni. Það eru þeir Bragi Einarsson, Einar Bragason og Kristján Jón Andrésson sem vinna verkið en nýir gluggar eru að að komast á sinn stað.

Húsið Breiðaból var byggt 1932 af Jóhannesi Sigurjónssyni. Húsið var þá kallað „Staður“ eftir gömlu húsi sem kona Jóhannesar, Sigríður Ólafsdóttir og hann höfðu átt. Það hús stóð þar sem samkomuhúsið stendur í dag. Sigríður Ólafsdóttir var dóttir Ólafs Sigurðssonar söðlasmiðs frá Litlahrauni. Hann hafði líka verið í flutningum á hestvögnum milli Reykjavíkur og Eyrarbakka. Jóhannes var sonur Sigurjóns Jóhannessonar á Gamlahrauni frá Stéttum í Hraunshverfi og móðir hans var Guðrún Gísladóttir.

Jóhannes var góður bátasmiður eins og faðir hans, hann smíðaði báta í skemmunni við Breiðaból. Bátinn Björgvin smíðaði hann og varð síðan formaður á bátnum, á fjölda vertíða, er róið var frá Stokkseyri. Björgvin var sérstök happafleyta þó ekki væri hún stærri en tæp 10 tonn. Sagt var að útgerðin hefði alltaf skilað hagnaði, enda farið sérlega vel með , einkum þó veiðarfæri. Þeir verkuðu allan sinn fisk sjálfir, þar var ekki kastað til höndunum á neinn hátt.

Eftir að Jóhannes dó var húsið selt Gunnari Þorvaldssyni rafvirkja frá Selfossi, og bjó hann þar í nokkur ár. Á eftir Gunnari bjó Reynir Böðvars á Breiðabóli, ógiftur og sinnti mestanpart ævinnar kartöflurækt.

Núverandi eigendur Breiðabóls eru Sylvía Kristjánsdóttir og Gestur Guðmundssonar. Þau hafa búið í húsinu í 10 ár og nú er verið er að gera það upp bæði að utan sem innan. „Það fer svolítið eftir veðri hvort er smíðað úti eða inni. Við Gestur erum ánægð með húsið og Eyrarbakka,“ segir Sylvía, sem er grafískur hönnuður og stundum sinnir starfi sínu heimanfrá.

Nýjar fréttir