-0.5 C
Selfoss

Úlfljótsvatn fær fyrstu viðurkenningar Vakans fyrir tjaldsvæði og hostel

Vinsælast

Þriðjudaginn 18. júlí sl. fór fram afhending á viðurkenningum Vakans, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, til Útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni.

Úlfljótsvatn varð þar með bæði fyrsta tjaldsvæðið og fyrsta hostelið til að fá viðurkenningu Vakans. Auk þess fékk staðurinn gæðaviðurkenningu fyrir ferðaþjónustu og viðurkenningu fyrir umhverfisflokkun.

Hluti starfsfólks og sjálfboðaliða Úlfljótsvatns við afhendinguna.

„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og erum stolt af staðnum og starfsfólki okkar,“ segir Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns.

„Okkar kjarnastarfsemi snýst um að bjóða skátum, nemendum og öðrum æskulýðshópum vettvang fyrir ævintýri og fræðslu. Samhliða því meginmarkmiði okkar höfum við undanfarin ár í auknum mæli opnað staðinn fyrir almenningi og góð dæmi um það eru fjölskyldutjaldsvæðið okkar og hostelið, sem bæði styðja við kjarnastarfsemi okkar.

Við leggjum áherslu á að bjóða jákvæða og spennandi upplifun í öruggu umhverfi. Þetta gerum við til dæmis með spennandi afþreyingu fyrir gesti um helgar, en líka með því að bjóða sérsniðna dagskrá fyrir hópa, bæði íslenska og erlenda. Í því samhengi njótum við líka góðs samstarfs við marga ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi.

Það er okkur gríðarlega mikilvægt að gestir okkar upplifi sig velkomna og örugga. Markmið Vakans falla því vel að okkar markmiðum og innleiðingarferlið hefur reynst okkur gagnlegt við að festa í form ferla og starfshætti,“ segir Guðmundur.

 

Nýjar fréttir