Minnst var 100 ára afmælis Magnúsar Gíslasonar fyrsta skólastjóra Héraðsskólans í Skógum þann 25. júní sl. með samkonu í Hótel Eddu í Skógum. Þar mættu börn Magnúsar og nemendur frá fyrsta árgangi skólans 1949–1950. Við það tækifæri flutti Þórður Tómasson eftirfarandi ávarp:
Ágæta fjölskylda! Góðir gestir! Magnús Gíslason og frú Brittu Gíslason ber hátt hjá mér í minningum genginna æfidaga. Það var merkur atburður í menningarsögu Suðurlands er Héraðsskólinn í Skógum hóf starf árið 1949. Langþráð hugsjón heimamanna í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu varð að veruleika. Hér eignaðist æskufólk athvarf í stofnun fræðslu og menningar. Góðir leiðtogar leiddu verkið frá byrjun. Menningarsetrið nýja leiddi Byggðasafnið í Skógum til lífs og það stendur nú hug mínum næst. Safnvísir var varðveittur heima hjá mér í litlum bílskúr úti í Vallnatúni, ekkert tiltækt safnrými virðist liggja á lausu þá um sinn í héraði. Ég fór á fund Magnúsar skólastjóra og hann tók mér fegins hugar, hvergi ætti minjasafn gamallar alþýðumenningar betur heima en í sambýli við æskuna sem í fræðsluleið skyldi í senn kunna skil á sögu feðra og mæðra og taka þátt í sókninni fram til nýrrar aldar. Safnstjórn, þá rétt í reifum, lét sér að vonum vel líka. Hún fékk þjóðhagann Sigurjón Magnússon í Hvammi til að innrétta fyrsta safnhælið í kjallara Skógaskóla og smíða fyrstu sýningarpúltin. Ég miða fæðingu Skógasafns við 1. desember 1949. Frumsýning var í ljós leidd. Minjasöfnun hinnar gömlu, deyjandi atvinnumenningar fékk byr undir báða vængi. Sumarsýning í skólastofum var brátt sett upp og síðan kemur safnhúsið byggt á árunum 1954-1955, af vanefnum gert en hér varð ekki aftur snúið og Vestur-Skaftfellingar komu til með að styrkja staðsetninguna í Skógum 1952. Framtíðin blasti við, fremur björt sýnum. Magnús skólastjóri fylgdist vel með og hvatti til dáða. Ég minnist ferðar með honum í minjaleit út um Landeyjar. Þá heimsóttum við frænda minn, Þorgeir Tómasson á Arnarhóli, og hans ágætu, glöðu konu, Þóru Þorsteinsdóttur. Gamla skarsúðarbaðstofan á Arnarhóli stóð auð og yfirgefin og beið þess að hverfa með öllu. Við Magnús báðum henni griða og það fór svo að hún var fest til flutnings austur að Skógum, ómetanlegur fulltrúi þeirra menningarhúsa liðinna alda sem fóstruðu líf og starf þjóðarinnar. Mér er það hugstætt að síðar skrifaði Magnús Gíslason doktorsritgerð sína um íslensku kvöldvökuna, þar sem handiðnir, sagnalestur, rímnakveðskapur og rökkursögur mynduðu umgerð þjóðmenningar. Ég þekkti vel til þessa starfs Magnúsar því þá var ég starfsmaður þjóðháttadeildar þjóðminjasafnsins og kom að öflun heimilda.
Skógaskóli varð þegar í byrjun mikil og góð menningarstofnun. Til starfs með Magnúsi og Brittu völdust miklir öndvegismenn, Albert Jóhannsson, Jón Jósep Jóhannesson, Snorri Jónsson, William Möller og fleiri karlar og konur, að ég gleymi ekki þjóðskáldinu og ræðusnillingnum Sr. Sigurði Einarssyni í Holti sem gaf skólasönginn „Komið heil, komið heil til Skóga”
Kvenprýðin og söngkonan góða, Britta Gíslason, setti mikinn svip á umhverfi sitt og mótaði starfið á ýmsan veg. Hún leiddi hér að nokkru inn menningu Svíabyggðar „með sögufrægð og hetjudyggð og málmi skærra mál.” Ekki gleymast mér Lúsíukvöldin hennar með söng og ljósadýrð. Kvöldin þau var húsfyllir í Skógaskóla, glaðir gestir gengu þar að skemmtun og góðum veitingum. Byggðasafnið í Skógum byrjaði sem fósturbarn Skógaskóla. Það hefur nú í raun tekið við hlutverki hans sem menningar- og fræðslustofnun. Það breytir því ekki að Skógaskóli heldur áfram velli í sögunni sem áhrifamikill miðill fræðslu og þekkingar um áratuga skeið og fjölmargir geyma enn minningu hans í hlýjum hug.
Það var sannur sjónarsviptir er sæmdarhjónin Magnús og Britta Gíslason og þeirra fríðu og frjálslegu börn hurfu héðan. Fjölskyldan hefur haldið mikilli tryggð við Skóga allar götur síðan. Í dag er minnst 100 ára afmælis Magnúsar, hins gagnmerka, viljasterka skólamanns og fræðara. Hans styrka rödd, fagri söngur og hlýja handtak eru mér enn í minni. Kæra fjölskylda. Til hamingju með daginn og guðsblessun fylgi ykkur á ævileið. Magnús Gíslason er einn þeirra mörgu sem varpað hafa birtu á vegferð mína. „Mikill persónuleiki,” sagði Albert Jóhannsson. Ég geymi hann í góðri minningu. Mikils skal meta mennina sem ruddu brautina og færðu okkur fram á leið til aukinnar hagsældar og menningar. Skólaskóli er illu heilli niður fallinn en áhrif hans vera hjá þeim fjölda er til hans sótti manndáð og menningu og til hans er að rekja skóginn sem nú skartar hér um brekkur og gerir bæjarheitið Skógar aftur að réttnefni.
Þórður Tómasson