Selfyssingar hafa fengið liðsauka í handboltanum fyrir komandi keppnistímabil, en línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson hefur gert tveggja ára samning við félagið.
Atli Ævar, sem er 29 ára gamall, kemur til Selfyssinga frá sænska liðinu Sävehof. Hann hóf feril sinn og lék með liði Þórs Akureyri og einnig með HK áður en hann hélt út í atvinnumennsku.
Atli hefur leikið með dönsku liðunum SönderjyskE og Nordsjælland. Þaðan hélt hann til Svíþjóðar þar sem hann lék fyrst með Guif og síðan Sävehof.
Atli Ævar var valinn í úrvalslið sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur spilað 9 leiki með íslenska A-landsliðinu og hefur skorað í þeim samtals 9 mörk.
Elvar Örn framlengir samning sinn
Elvar Örn Jónsson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til tveggja ára. Elvar Örn var valinn miðjumaður ársins í Olís-deildinni á síðasta keppnistímabili. Hann var burðarás í liði Selfoss á síðasta keppnistímabili, en liðið náði fimmta sæti í Olís deildinni eftir að hafa komið upp úr næst efstu deild að loknu fræknu einvígi við Fjölni á vordögum árið áður.
Elvar Örn er fastamaður í U-21 landsliði Íslands og hefur auk þess verið valinn til æfinga með A-landsliði Íslands.