3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Skálholtshátíð 2017 – 500 ára siðbótarafmæli

Skálholtshátíð 2017 – 500 ára siðbótarafmæli

0
Skálholtshátíð 2017 – 500 ára siðbótarafmæli
Vígslubiskup, sr. Krisján Valur Ingólfsson tekur á móti pílagrímum á Skálholtshátíð 2016.
Vígslubiskup, sr. Krisján Valur Ingólfsson tekur á móti pílagrímum á Skálholtshátíð 2016.

Fimm hundruð ára afmæli siðbótar Marteins Luther setur svip sinn á Skálholtshátíð í ár en hún verður haldin 22.–23. júlí nk. Dr. Margot Käßmann, prófessor og fyrrum biskup í Þýskalandi verður sérstakur gestur hátíðarinnar og mun leiða seminar um stöðu og framtíð evangelisk-lútersku kirkjunnar í heiminum laugardaginn 22. júlí kl. 10–12, og flytja hátíðarræðuna á hátíðarsamkomunni sunnudaginn 23. júlí kl. 16:15.

Laugardaginn 22. júlí verður útimessa við Þorlákssæti kl. 12:15 og kl. 13.30 kynning á uppgreftrinum sunnan kirkjunnar. Grasa- og söguganga verður kl. 14.30. Kl. 16.00 hefjast tónleikar í Skálholtsdómkirkju þar sem flutt verður m.a. Kantata Jóhanns Sebastians Bach nr. 126. Flytjendur eru Skálholtskórinn og Bachsveitin í Skálholti og einsöngvararnir Hildigunnur Einarsdóttir alt, Benedikt Kristjánsson tenór og Oddur Arnþór Jónsson bassi. Kórstjóri er Jón Bjarnason og stjórnandi Benedikt Kristjánsson.

Sunnudaginn 23. júlí verða orgeltónleikar kl. 11 en Hátíðarmessa hefst kl. 13:30 með inngöngu pílagríma sem gengið hafa pílagrímagöngu til hátíðarinnar. Að lokinni messu verður kirkjukaffi og síðan hátíðarsamkoma í kirkjunni kl. 16:15. Hátíðarræðu flytur dr. Margot Käßmann. Ræðan verður flutt á þýsku en hátíðargestir fá hana útprentaða á íslensku. Ávörp flytja Sigríður A. Andersen dómsmálaráðherra, sr. Agnes M Sigurðardóttir biskup Íslands og sr. Karl Sigurbjörnsson biskup og formaður Skálholtsfélagsins hins nýja. Einnig er mikill tónlistrflutningur. Skálholtshátíð var fyrst haldin árið 1948. Það var upphafið að endurreisn Skálholtsstaðar.