-5.5 C
Selfoss
Home Fréttir Rómantík á Eyrarbakka

Rómantík á Eyrarbakka

0
Rómantík á Eyrarbakka

Bryndís Guðbjartsdóttir og Karl Vignir Dyrving búa í Stíghúsi á Eyrarbakka. Húsið þeirra er þekkt sem Þórdísarhús, en Þórdís ljósmóðir bjó á Eyrarbakka frá 1883-1933 og tók hún á móti hátt í tvö þúsund börnum.

Bryndís og Karl í Stíghúsum á Eyrarbakka. Mynd: Helena.

Bryndís og Karl hafa komið sér vel fyrir í húsinu og rækta garðinn sinn. Þau eru með blóm og jurtir í gróðurhúsi og matjurtargarði í horni lóðarinnar. Í bakgarðinum búa landnámshænur í kofa og heita þær ýmsum skemmtilegum nöfnum, eins og Mía Móa og Stína Stuð. Mest áberandi er Stína Stuð sem gengur vasklega um túnið og greinilegt er hver ræður í hópnum.

Stíghús er þekkt sem Þórdísarhús, þar bjó Þórdís Símonardóttir ljósmóðir. Mynd: Helena.

„Það eru barnabörnin sem hafa gefið hænunum skemmtileg nöfn. Við Karl fluttum hingað úr borginni fyrir fimm árum, við sáum þetta hús til sölu og slóum bara til. Við erum alsæl hér með hænur og egg. Við ræktum líka grænmetið og auðvitað barnabörnin okkar og ekki má gleyma hundinum sem heitir Röskva,“ segir Bryndís glaðlega.

Karl, Filipía, Anna, Jón, Bryndís og hundurinn Röskva á góðri stundu. Mynd: Helena

Litið heimasmíðað garðhús stendur út að götunni, Karl segir þetta vera Götubókhlöðu, þau Bryndís eru félagar í Bókabæjunum austanfjalls. Bókhlaðan er smíðuð og máluð af þeim hjónum og geta þorpsbúar og gestir gengið að bókum í hlöðunni og einnig komið með sínar eigin bækur.                                                                                                            -hs.