3.9 C
Selfoss

Ungu krakkarnir fengu mikla reynslu af því að keppa á Meistaramótinu

Vinsælast

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram á Selfossi um síðustu helgi. Ágætis veður var meðan keppnin fór fram. Smá væta og vindur var á laugardag en sól og blíða á sunnudag. Keppendafjöldi var með mesta móti eða um 200 manns. ÍR-ingar unnu stigakeppni félaga með 38.573 stig, FH varð í öðru sæti með 34.232 stig, Breiðablik í þriðja með 23.819 stig, Fjölnir í fjórða með 10.836 stig og HSK/Selfoss í fimmta sæti með 9.082 stig.

Ólafur Guðmundsson yfirþjálfari keppnisliðs HSK/Selfoss var spurður hvernig mótið hefði gegnið. „Á heildina litið gekk mótið mjög vel og veðrið var ágætt. Reyndar var pínu bleyta og aðeins kaldara á laugardeginum og því aðeins mótvindur í spretthlaupunum á laugardag og en fínt á sunnudag. Á sunnudeginum var líka aðeins mótvindur sem kom niður á stönginni. Það hefði í sjálfu sér verið hægt að færa tímatökubúnaðinn og stangarstökksgræjurnar en það er meira en að segja það og því voru þær hafðar svona. Almennt held ég að fólk hafi bara verið mjög ánægt. Það er mjög gott að geta verið með þessa aðstöðu hér á Selfossi til að halda mótið.“

Hvernig gekk HSK/Selfoss liðinu á mótinu?
„Okkar liði gekk bara nokkuð vel en við vorum með 23 keppendur. Við unnum fimm verðlaun og þrjá titla. Kristinn Þór vann tvo þ.e. 800 m og 1.500 m hlaup og Guðrún Heiða bætti sig um 19 cm og vann langstökkið. Hún setti HSK-met í sínum aldurflokki og var rétt við HSK-metið í fullorðinsflokki. Svo er búið að vera mikið um persónulegar bætingar. Stefán Ari varð t.d. sjötti í spjóti og Hildur Helga sem er ung og efnileg en hún varð fjórða í spjóti með tæpa 37 metra. Svo bættu strákarnir sig í 100 m hlaupi og bæði kynin hlupu vel á báðum boðhlaupunum. Á heildina er ég bara nokkuð ánægður með ungu krakkana okkar.“

Hvaða þýðingu hefur það fyrir frjálsíþróttastarfið á Selfossi að fá svona mót?
„Það hefur mikil áhrif á keppendur og þá sérstaklega þessa ungu. Það er mjög gott fyrir þau að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig og keppa með toppunum sem eru miklir reynsluboltar. Það fer allt í reynslubankann. Svo náttúrulega fyrir staðinn, frjálsíþróttadeildina og fyrir starfsfólkið sem fær þjálfun og sér hvernið þessi stóru mót eru framkvæmd en það er frábært.“

Hvað stóð upp úr á mótinu hvað keppnina sjálfa varðar?
„Það voru spretthlaupin, bæði hjá körlum og konum. Þau voru mjög sterk í ár. Það var einvígi hjá Kolbeini Heði og Ara Braga í 100 metrunum og svo vann Tiana Ósk 100 m hlaup kvenna. Hún er mjög efnileg og er búin að hlaupa mjög vel í sumar og ná einum af bestu tímum hjá konum frá upphafi held ég. Arna Stefanía var svo bara 2/100 á eftir henni. Þetta stóð upp úr árangurslega séð. Þá settu karlasveit FH og kvennasveit ÍR Íslandsmet félagsliða í 4×100 m boðhlaupi á mótinu. Margt annað var líka gott eins og spjótið hjá Ásdísi Hjálms, kringlan hjá Guðna Val og sleggjan hjá Hilmari Erni. Þetta fólk stendur svolítið upp úr. Þau eru þannig séð topparnir hér á landi,“ sagði Ólafur að lokum.

Nýjar fréttir