-1.1 C
Selfoss

Forvitnileg tónlist á Sumartónleikum í Skálholti

Vinsælast

Önnur vika Sumartónleika í Skálholti hefst með tónleikum ungmenna- og þjóðarkórs Ástarlíu The Gondwana Singers í kvöld fimmtudagskvöld klukkan 20. Kórinn flytur þar tónlist frá Ástralíu.

María Huld Sigfúsdóttir Markan, staðarstónskáld Skálholti.

Um helgina, dagana 15.–16. júlí verður svo staðarstónskáldið María Huld Sigfúsdóttir Markan í sviðsljósinu ásamt Nordic Affect sem leikur forvitnilega barokktónlist og einnig ný verk m.a. eftir Maríu Huld og Höllu Steinunni Stefánsdóttur, listrænan stjórnanda Nordic Affect. Á tónleikum sunnudagsins klukkan 14 berst Nordic Affect liðsauki, tólf manna kammerkór, sem tekur þátt í frumflutningi á nýju verki Maríu Huldar.

Tónleikar Nordic Affect einkennast af nýstárlegri nálgun og frumleika í verkefnavali en hópurinn hefur frá upphafi flutt allt frá danstónlist 17. aldar til framsækinnar raftónlistar okkar tíma. Allir meðlimir hópsins eiga að baki langt nám í barokkhljóðfæraleik en auk starfsins með Nordic Affect hafa þeir leikið og hljóðritað með aðilum á borð við The English Concert, Concerto Copenhagen, Anima Eterna Brugge og Björk. Hópurinn hefur hlotið lof og viðurkenningar heima og heiman og fór nýlega í tónleikaferð til Bandaríkjanna og Spánar en framundan eru hljóðritanir fyrir Sono Luminus og tónleikaferðir til Lettlands og Belgíu.

María Huld Markan Sigfúsdóttir er fædd árið 1980 og er fiðluleikari og tónskáld að mennt. Hún hefur verið meðlimur í hljómsveitinni Amiinu til margra ára, ferðast með henni heimshorna á milli og flutt tónlist í ýmsum myndum. María hefur á undanförnum árum unnið með fjölmörgum listamönnum og hljómsveitum t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Nordic Affect, London Sinfonietta, Francesco Scavetta, Spiritualized, Brice Dessner, Yann Tiersen, Julianna Barwick, Guy Maddin, Ben Frost, Aono Jikken Ensemble, Sigur Rós, Ragnari Kjartanssyni og Sólstöfum.

Árið 2012 hlaut María viðurkenningu frá IRC (International Rostrum of Composers) fyrir verk sitt Sleeping Pendulum. Upptökur af verkum hennar hafa einnig hlotið mikið lof gagnrýnenda, má þar sérstaklega nefna plötuna Clockworking sem kom út árið 2015 á vegum Sono Luminus útgáfunnar og hefur að geyma tvö tónverk Maríu Huldar í flutningi tónlistarhópsins Nordic Affect.

María hefur samið tónlist við kvikmyndir og dansverk og hafa tónsmíðar hennar verið fluttar á Íslandi, í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Hljómsveitarverkin 1001 – for bowed metal og Aequora voru samin sérstaklega fyrir og frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands og í desember 2016 var síðarnefnda verkið hljóðritað á vegum SÍ og Sono Luminus útgáfunnar til útgáfu. Þá var verkið Aequora einnig flutt af Los Angeles Philharmonic undir stjórn Esa Pekka Salonen í apríl 2017.

Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu Sumartónleikanna, sumartonleikar.is.

Nýjar fréttir